Fótboltasumarið hófst nú í lok apríl þegar Grindvíkingar tóku á móti Breiðabliki í Pepsí Max-deild karla. Grindavík hefur nú spilað þrjá leiki í deildinni, gert tvö jafntefli og tapað einum leik. Það var í fyrsta leik sumarsins sem Grindavík tapaði fyrir Breiðablik á heimavelli 0-2.
Annar leikur sumarsins var síðan á móti Stjörnunni í Garðabænum sem lauk með 1-1 jafntefli. Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði þá á 29. mínútu fyrir Stjörnuna en Kiyabu Nkoyi jafnaði leikinn fyrir Grindavík á 65. mínútu.
Þriðji leikurinn fór fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum um síðustu helgi. Það var 4 marka leikur sem fór 2-2. Eyjamenn komust í 2-0. Þegar 3ja markið bættist við okkar mönnum í vil var um var að ræða sjálfsmark hjá Eyjamönnum á 45. mínútu en á 60. mínútu skoraði Aron Jóhannsson og jafnaði leikinn.
Í leiknum á móti ÍBV fór Sigurjón Rúnarsson mikla byltu eftir harkalegt samstuð en betur fór en á horfðist. Móðir hans, Ragnheiður Þóra náði ótrúlegri mynd sem hefur farið eins og eldur um sinu á netinu eftir að atvikið náðist á mynd.
Grindavík er sem stendur í 9. sæti Pepsí-deildarinnar með 2 stig. Efst er Breiðablik með 7 stig en neðst eru Valur, HK og ÍBV öll með eitt stig.
Næsti leikur í Pepsí Max-deildinni er á móti KR hér heima. Leikurinn fer fram fimmtudaginn 16. maí og hefst klukkan 19:15.
Stelpurnar spila í Inkasso deildinni í sumar og spiluðu sinn fyrsta leik úti á móti Augnablik á föstudaginn var. Leikurinn endaði í 3-1 fyrir Augnabliki en mark Grindavíkur skoraði Tinna Hrönn Einarsdóttir á 33. mínútu þegar hún jafnaði leikinn í 1-1. Næsti leikur hjá stelpunum er á sunnudaginn kemur á móti Aftureldingu. Hann fer fram hér heima og hefst klukkan 14:00.