Pétur Rúðrik og Páll Árni í pílulandsliðið

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindvíkingarnir Pétur Rúðrik Guðmundsson og Páll Árni Pétursson hafa báðir tryggt sér sæti í landsliðinu í pílukasti en 4 karlar og 4 konur taka þátt fyrir Íslands hönd á WDF heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Rúmeníu 7-12 október 2019. Spilað var í Reykjavík og var sýnt beint frá mótinu á YouTube síðu Live Darts Iceland.

Á pílukastsvefnum dart.is kemur fram að frá Suðurlandi voru 6 keppendum boðið þátttaka og 3 frá Norðurlandi í karlaflokki og 4 frá Suðurlandi og 4 frá Norðurlandi í kvennaflokki. Valið var útfrá stigalista ÍPS en efsti spilari í karlaflokki var þegar búinn að tryggja sér sæti í landsliðinu. Það var því keppt um hin þrjú sætin í karlaflokki en öll fjögur í kvennaflokki.

Í karlaflokki spiluðu Hallgrímur Egilsson, Pétur Rúðrik Guðmundsson, Karl Helgi Jónsson, Páll Árni Pétursson, Alex Máni Pétursson og Kjaran Sveinsson við Bjarna Sigurðusson, Atla Már Bjarnason og Jónas Helgason. Keppendur frá Suðurlandi spiluðu ekki við aðra frá sama svæði og voru gefnir vinningar útfrá stöðu á stigalista í staðinn.

Pétur Rúðrik varð í byrjun mars Íslandsmeistari í pílukasti (301) og ræddi hann þá stöðu pílukasts í Grindavík við vefsíðuna. Pétur  sagði gríðalegan áhuga á pílukasti í Grindavík og það verði bæði gagnlegt og gaman þegar við félagið fái aðstöðu til að geta boðið upp á æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir bæði unglinga og fullorðna hér í Grindavík. “Við vitum að bæjarfélagið vill standa þétt við sitt íþróttafólk og höfum við fengið velyrði fyrir því að fá aðstöðu fljótlega svo hægt sé að virkja alla félagsmenn og halda áfram að vera í fremstu röð í pílukasti á Íslandi.” sagði Pétur að lokum. 

Vefsíðan óskar þeim Pétri og Páli Árna, sem báðir eru í Pílufélagi Grindavíkur, til hamingju með sætið sitt í landsliðinu og óskar þeim góðs gengis.