Jón Axel reynir við nýliðaval NBA deildarinnar

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Jón Axel Guðmundsson tilkynnti rétt fyrir páska að hann ætli að gefa kost á sér í nýliðavali NBA deildarinnar í körfubolta í sumar. Jón Axel hefur farið á kostum með Davidson háskólanum frá Norður-Karólínu í bandaríska háskólaboltanum í vetur en hann er aðeins 22 ára gamall, fæddur árið 1996 og spilaði með Grindavíkurliðinu í körfubolta árin 2011-2016 þegar hann hélt út til Bandaríkjanna til að spila þar. 

Jón Axel á ekki langt að sækja körfuboltahæfileikana en foreldrar hans voru bæði landsliðsfólk í körfubolta, Stefanía S. Jónsdóttir og Guðmundur Bragason.

Jón Axel birti þessar fréttir á Instagram-síðu sinni. „Eftir vandlega íhugun og eftir að hafa ráðfært mig við fjölskyldu mína og þjálfara, er ég sannfærður um að það sé skynsamlegt að gefa kost á mér í nýliðavali NBA deildinnar 2019, með möguleika á því þó að geta spilað lokaárið mitt í háskólaboltanum. Miðað við nýju reglurnar, mun ég nú ráða mér umboðsmann. Ég er þakklátur fyrir allan stuðninginn frá fjölskyldunni, liðsfélögum, vinum, þjálfurum og starfsfólki Davidson samfélagsins. Ég er afar spenntur að sjá hvort mér takist þetta markmið mitt, en sömuleiðis spenntur að snúa aftur í lið Davidson ef NBA draumurinn gengur ekki upp,“ 

Vefsíðan óskar Jóni Axel góðs gengis í því spennandi nýliðavali sem framundan er hjá NBA-deildinni.