Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, leikmaður Davidson -skólans í bandaríska háskólaboltanum NCAA, hefur verið að standa sig frábærlega í vetur með liðinu sínu. Í gær var tilkynnt að Jón Axel hefði verið valinn besti leikmaður Atlantic 10 deildarinnar en það eru þjálfarar A-10 sem sjá um valið. Guðmundur Bragason, faðir Jóns Axels sagði stoltur frá þessu á Facebook síðu sinni í gær og tengdi fréttina með færslunni sem sjá má hér.
Spennandi úrslitakeppni er framundan hjá Jóni Axel og hans liði en um síðustu helgi unnu Davidson leik á móti Richmond á útivelli og tryggði sér annað sætið í A-10. Í þeim leik var Jón Axel stigahæstur með 22 stig og steig upp þegar á þurfti að halda. Tímabilið endaði Jón Axel í topp 5 í A-10 deildinni í stigum, fráköstum og stoðsendingum. Fram kemur á Facebook síðu Gumma Braga að hann sé aðeins annar leikmaðurinn í sögu A-10 sem afreki það.
Við óskum Jóni Axel innilega til hamingju með frábæran árangur í vetur og óskum honum og hans liði góðs gengis í úrslitakeppninni sem framundan er.