Þau fengu hvatningarverðlaun

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Nokkur efnileg ungmenni voruð heiðruð á kjöri íþróttafólks Grindavíkur sem fram fór á gamlársdag. Hvatningarverðlaun eru veitt frá deildum innan UMFG, Brimfaxa og Golfklúbbi Grindavíkur. Þau sem hljóta þessi verðlaun eru ungmenni sem eru áhugasöm, með góða hegðun, sýna góða ástundun og teljast vera góðar fyrirmyndir. 

Hér á eftir smá sjá umfjallanir um þau, eftir þeirri röð sem þau eru á meðfylgjandi mynd.  Þau eru f.v. 

Olivia Ruth Mazowiecka, júdó
Olivia Ruth er dugleg að mæta á æfingar, hjálpsöm og góð fyrirmynd, með þessu áframhaldi á hún sér bjarta framtíð.

Arnór Tristan Helgason, golf
Arnór er búin að vera mjög duglegur að sinna golfinu á sumrin. Hann er búin að vinna Unglingameistartitil GG tvisvar sinnum. Þess má geta að Arnór spilaði seinni 9 holur Húsatóftavallar á lokadegi Meistaramóts Unglinga 2018 á 3 höggum yfir pari sem er MJÖG góður árangur. Arnór hefur verið til fyrirmyndar hér á golfvellinum sem og í golfskálanum.

Magnús Engill Valgeirsson, körfuknattleikur
Magnús Engill hefur frá barnsaldri æft körfuknattleik með Grindavík. Undanfarin ár hefur hann tekið miklum framförum og er lykilmaður í sínum aldursflokk. Magnús hefur sýnt mikla vinnusemi og elju til þess að bæta sinn leik og er meðal efnilegustu leikmanna félagsins. Helstu kostir Magnúsar eru þeir að hann er mjög góður skotmaður og enn betri liðsfélagi. Hann er alltaf tilbúinn að aðstoða hjá körfuknattleiksdeildinni og er reglulegur starfsmaður á ritaraborði þegar aðrir flokkar deildarinnar eru að keppa. Magnús er fyrirmyndar Grindvíkingur sem á framtíðina fyrir sér.

Aníta Ólöf Þorláksdóttir, hestaíþróttir
Aníta Ólöf er jákvæð og skemmtileg stelpa. Hún er virk í æskulýðsstarfi Brimfaxa og hefur aðstoðað við sumarreiðnámskeið síðustu 2 sumur.Aníta hefur valið sèr hestamennsku sem valfag í grunnskóla Grindavíkur eins oft og kostur er og hún er duglegur knapi sem hefur tekið miklum framförum í hestaíþróttinni.

Flóvent Rigved Adhikari, sund
Flóvent sinnir íþrótt sinni vel, hann mætir stundvíslega og vel til æfinga. Hann er metnaðarfullur og leggur sig ávallt fram á æfingum. Flóvent kemur fram af kurteisi og fer eftir fyrirmælum. Hann er góður sundmaður.

Hulda Björk Ólafsdóttir, körfuknattleikur
Hulda er skynsöm, áræðanleg og kurteis stúlka sem hlustar á það sem lagt er fyrir hana hverju sinni. Hún mætir vel á æfingar og sinnir þeim vel og hefur það skilað henni miklum framförum á þessu tímabili. Hulda er kröftugur sóknarmaður og er ein af þeim leikmönnum sem bera uppi hennar lið, hún stóð sig frábærlega á síðasta ári þegar hennar flokkur varð Íslands- og bikarmeistari og var hún þá einnig valin í landslið í hennar árgangi. Alltaf er  hægt að leita til hennar þurfi að skora síðustu körfu leiksins og eru fáir leikmenn sem hafa þann einginleika í sínu vopnabúri. Hulda er saviskusöm í öllu sem hún gerir sem leikmaður og aldrei hrýtur af hennar vörum neikvætt orð gagvart liðfélögum sínum. Hún hefur alltaf stundað sína grein af elju þrátt fyrir á tíðum mikið mótlæti. Ef fram fer sem horfir verður ekki langt þangað til hún stígur sín fyrstu skref sem leikmaður meistaraflokk kvenna í Grindavík. Að lokum sendi Ellert þjálfarinn hennar henni tvær vísur: 

Bjarta blómarósin blíð,
berst þér lítil baga
Eigðu ævi alla tíð
yndislega daga

eða

Hulda hún er yngismær,
mild í verkum sínum.
Eins og sólargeisli skær
skart í huga mínum

 

Þau fengu einning heiðursverðlaun en voru fjarverandi þegar hófið fór fram og eru því ekki á hópmyndinni

Birta María Pétursdóttir, knattspyrna
Birta er metnaðarfullur leikmaður sem stundar sína íþrótt af miklu kappi og mætir á allar æfingar með bros á vör og ætlar sér alltaf að gera sitt besta í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Með því hugarfari mun hún ná langt með sama áframhaldi. Birta tekur virkan þátt í starfi félagssins og þrátt fyrir ungan aldur er hún einnig farinn að leiðbeina yngri iðkendum sem aðstoðarkona í þjálfun. Birta er frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur félagssins þótt ung að árum sé.

Ólafur Reynir Ómarsson, knattspyrna
Ólafur Reynir er mjög áhugasamur og duglegur iðkandi. Hann mætir á allar æfingar og leggur sig alltag 110% fram. Ólafur Reynir er metnaðarfullur leikmaður og er alltaf tilbúinn að hlusta á leiðsögn sem margir ungir iðkendur mættu taka sér til fyrirmyndar því það er leiðin að árangri. Hann hefur þroskast á afar jákvæðan þátt og sýnir aukið sjálfstæði og mikinn baráttuvilja. Hann hefur sýnt miklar framfarir á öllum sviðum auk þess er Ólafur Reynir mikil fyrirmynd utan vallar, hann er mjög kurteis, kemur vel fram og er félagi sínu til mikils sóma.

Allar myndir sem teknar voru á kjöri íþróttafólks Grindavíkur á gamlársdag eru nú komnar inn á Facebook síðu bæjarins en hana má nálgast hér. Óski viðkomandi íþróttafólk eða aðstandendur þeirra eftir einstaklings- eða hópmynd má senda póst á heimasidan@grindavik.is til að fá myndina í fullri upplausn.