Það er ljóst að Grindvíkingar munu tefla fram umtalsvert breyttu liði næsta sumar í Pepsi-deild karla en síðustu daga hefur hver fréttin á fætur annarri borist af brotthvarfi leikmanna. Stór hluti leikmannahóps liðsins var samingslaus þegar tímabilinu lauk.
Fyrstur til að yfirgefa hópinn var markvörðurinn Kristijan Jajalo sem hefur þó ekki samið við nýtt lið ennþá en hann stefnir á að spila áfram á Íslandi.
Þá hefur varnarjaxlinn Björn Berg Bryde hefur samið við Stjörnuna, Sam Hewson við Fylki og Brynjar Ásgeir Guðmundsson er hættur hjá Grindavík. Einnig greindi Fótbolti.net frá því að Færeyingurinn Rene Joenssen hefði hug á því að spila fyrir stærra félag en Grindavík.
Eins og sennilega flestir vita hafa einnig orðið töluverðar breytingar á þjálfarateyminu en þeir Óli Stefán og Túfa skiptu á sætum í Grindavík og Akureyri. Þá er Þorsteinn Magnússon markmannsþjálfari farinn í Fylki.
Að ofangreindu er ljóst að nýtt þjálfarateymi og stjórn Grindavíkur á mikið verk fyrir höndum næstu mánuði og bíðum við spennt eftir góðum fréttum af liðinu.