Stjórn körfuknattleiksdeildar UMFG gekk á dögunum frá samningum við tvo erlenda leikmenn fyrir komandi átök í vetur. Annars vegar við grískan bakvörð að nafni Michalis Liapis og hinsvegar við Jordy Kuiper sem er hollenskur miðherji og telur heila 206 cm.
Michalis Liapis hefur leikið í Grikklandi og fór í gegnum allt unglingastaf PAOK þar í landi. Hann á að baki landsleiki með U16, U18 og U20 ára liði Grikkja. Hann samdi í fyrra við lið í Rúmeníu en meiðsli sáu til þess að sú dvöl var styttri en áætlað var. Jordy Kuiper er eins og áður segir 206 cm og er ætlað að styrkja liðið undir körfunni, og sennilega ekki vanþörf á eftir að Sigurður Gunnar Þorsteinsson gekk til liðs við ÍR á dögunum.
Jordy útskrifaðist frá NC Greensboro háskólanum í vor. Skólinn komst í hið fræga NCAA tournament en féll þar út í fyrstu umferð. Báðir eru leikmennirnir fæddir árið 1995. KKD UMFG er ánægð með þessa niðurstöðu og hlakkar til þess að starfa með þessum leikmönnum í vetur.