Sigtryggur Arnar til Grindavíkur

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Risastórar fréttir bárust frá Körfuknattleiksdeild UMFG í gærkvöldi þegar greint var frá því að Sigtryggur Arnar Björnsson væri genginn til liðs við Grindavík. Fréttir höfðu borist síðustu daga að viðræður um félagaskipti Arnars frá Tindastóli væru í gangi, sem voru svo staðfestar í gær með handabandi og fréttatilkynningu:

„Það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna að við höfum náð samkomulagi við KKD. Tindastóls um félagaskipti Sigtryggs Arnar Björnssonar og hefur hann skrifað undir samning að spila með Grindavík á næsta tímabili. Það er það öllum ljóst að Arnar mun styrkja flottan hóp til muna en Arnar hefur verið einn besti leikmaður Dominosdeildarinnar síðustu ár og er ljóst að þarna er gríðarlega stór hvalreki að reka á fjörur okkar! Við bjóðum Arnar hjartanlega velkominn til Grindavíkur og hlökkum við mikið til að vinna með honum en hann mun flytjast búferlum til Grindavíkur eftir sumarið.“

Það er ljóst að Arnar mun styrkja Grindavík umtalsvert, en hann var einn af burðarásum Tindastóls síðastliðinn vetur, þar sem hann skilaði 19,4 stigum, 4 fráköstum og 3,3 stoðsendingum að meðaltali í 26 leikjum.