Zoran Vrkic í Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík hefur samið Króatann Zoran Vrkic og mun hann leika með Grindavík út leiktíðina í Subway-deild karla. Zoran hefur komið víða við á ferli sínum en hefur leikið með Tindastóli frá því á síðsta tímabili. Samstarfi hans við Tindastól lauk núna í vikunni og hefur Zoran nú samið við Grindavík út tímabilið.

„Við höfum verið að skoða í kringum okkur eftir liðstyrk og Zoran varð strax mjög spennandi kostur þegar hann varð laus. Okkur vantar meiri breidd og það er mikill kostur að taka til okkar leikmann sem þekkir deildina vel. Zoran mun klárlega styrkja okkar lið í baráttunni út leiktíðina og við hlökkum til að fá hann inn í leikmannahópinn,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

Zoran er 198 cm hár og getur leyst nokkrar stöður í vörn og sókn. Hann fór í úrslit með Tindastól um Íslandsmeistaratitilinn og var með 10,6 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Í vetur hefur Vrkic verið með um 8 stig að meðaltali í leik.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Vrkic velkominn til félagsins og hlökkum við til að sjá hann með félaginu í komandi leikjum.