Yngvi Páll ráðinn yfirþjálfari

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Yngvi Páll Gunnlaugsson hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Grindavíkur og mun hefja störf 1. ágúst næstkomandi.

Yngvi býr yfir miklli reynslu sem þjálfari og hefur þjálfað meistaraflokka m.a. hjá Val, KR og Haukum en hann gerði meistaraflokk kvenna hjá Haukum að Íslandsmeisturum árið 2009 auk þess sem hann hefur unnið fjölda titla sem þjálfari í yngri flokkum.

Frá 2016-2019 var hann yfirþjálfari hjá Vestra á Ísafirði auk þess að þjálfa meistaraflokka félagsins. Tímabilið 2019-2020 var hann í þjálfarateymi meistaraflokks karla hjá Njarðvík.

Við hjá Grindavík erum afar stolt og ánægð að fá Yngva til liðs við okkur og væntum mikils af samstarfinu á komandi misserum.

Kkd. Grindavíkur vill jafnframt koma á framfæri þökkum til Guðmundar Bragasonar og Stefaníu Jónsdóttir sem létu af störfum sem yfirþjálfarar að loknu keppnistímabilinu. Þau eiga stórt hrós skilið fyrir sín störf í vetur!