Wise kveður Grindavík – Marshall fær leikheimild

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur og Eric Wise hafa komist að samkomulagi um starfslok og mun Wise því ekki leika fleiri leiki með Grindavík í vetur í Dominos-deild karla. Wise kom til Grindavíkur í ágúst og voru bundnar miklar væntingar til hans. Því miður hafa meiðsli sett strik í reikninginn og náði Wise því miður ekki að sýna þá hæfileika sem hann sannarlega býr yfir.

„Eric Wise er frábær atvinnumaður en því miður þá gekk þetta ekki upp. Við þurfum að fá meira framlag frá atvinnumanni í hans stöðu og því varð þetta niðurstaðan. Við kveðjum Wise með söknuði og óskum honum alls hins besta í framtíðinni,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur.

Wise mun ekki leika með Grindavík í kvöld gegn Tindastóli en nýr erlendur leikmaður Grindavíkur, Marshall Nelson er kominn með leikheimild, og mun  þeyta frumraun sína með Grindavík í kvöld. Hann losnaði úr sóttkví síðdegis í dag ók rakleiðis norður á Sauðárkrók til móts við liðsfélaga Grindavíkur.