Viðtal við Pál Axel

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Úrslitakeppnin hjá stráknumum hefst í dag þegar Grindavík mætir Stjörnunni.

Að því tilefni settist ég niður með Pál Axel Vilbergssyni þar sem farið var yfir næstu leiki og kaflaskipta tímabil í ár.

 

Byrjum á þessum klassískum viðtalsspurning á þessum tíma.
Hvernig spáir heldur þú að úrslitakeppnin verði?

Ég spái að þetta verði allt hörkuviðureignir og þar með talin þessi gegn Stjörnunni.

Og ég þarf náttúrulega ekki að taka fram hverjum ég spái sigri í viðureigninni gegn Stjörnunni, maður spáir sjálfum sér aldrei ósigri.

Þeir unnu síðasta leik okkar og það bara nokkuð sannfarandi, voru bara miklu betri en við.

Hafa verið að spila nokkuð vel undanfarið og sérstaklega eftir áramót, mun betur en við.  Þannig að það er kannski ástæðan fyrir því að flestir spá þeim sigri í þessari viðureign.

Stjarnan að bæta sig eftir áramót en Grindavík að dala, hvað veldur því?

Við vinnum reyndar fyrstu leikina eftir jól en tíð skipti á erlendum leikmönnum er ekki gott fyrir liðið.

Það er því erfitt að finna stöðuleikann í okkar spilamennsku.  Á sama tíma hafa önnur lið verið að vinna á og bæta ofan á sitt á meðan við kannski að festast í sama farinu og ekki ná þeim framförum sem við vildum.

 

Ykkur hefur nú verið að ganga vel í síðustu leikjum?

Við höfum verið að vinna en við töpuðum auðvitað síðasta leik þar sem við vorum einfaldlega lélegir, skitum í heyjið eins og einhver sagði.

Þar á undan unnum við leiki en hvort við höfum verið eitthvað góðir veit ég ekkert um.  Það kom nýr maður og það tekur tíma að koma honum inn í leikinn og svo er annar tiltölulega nýkominn. En það þýðir ekkert að vera fela sig bak við þetta.  Við verðum að snúa bökum saman og finna einhverjar leiðir til þess að vinna.

 

Eru allir nokkuð veginn heilir?

Allir sem eru heilir eru heilir en hvort allir séu heilir veit ég ekkert um

En þetta er rosalega þreytandi spurning sem maður þarf alltaf að vera að svara, hverjir verða ekki með. Leikmenn eru of oft að pæla í þessu en maður einbeitir sér bara á þeim sem geta spilað og vinnum út frá því.  Eins með vangaveltur um erlenda leikmenn. Michael Jordan spilar ekki með okkur í næsta leik og verður ekki með okkur í þessari úrslitakeppni.

 

En það eru lykilmenn meiddir?

Já Þorleifur hefur ekki æft og hvort hann nái að koma inn núna veit ég ekki. Helgi tábrotnaði en þarftu eitthvað að nota tánna í körfubolta?

Eins og ég sagði þá einbeiti ég mér á því hvaða leikmenn verða með og keyrum á þetta saman.

 

Hvað með heilsuna á sjálfum þér, fullfrískur?

Nei ég er ekki fullfrískur en ég er frískari en ég hef verið í vetur.  Ég hef lagast helling undanfarnar vikur, tók sjálfan mig á í mataræði og öðru og lappirnar eru betri eftir það.

 

Ætlar þú að reyna halda í Ármann bróðir þinn sem hitti úr öllum fjórum 3 stiga skotum sínum í síðasta leik?

Nei ég er hættur að skjóta þrista, ég er alltaf að reka mig á það að ég hitti ekkert lengur. Hef ekki hitt hlöðuvegg í allan vetur.

Þannig að hann má alveg halda þessu.

 

Hættur að taka þrista, finnst þér spilamennska þín hafa breyst mikið á síðustu árum, meira inn í teig en áður?

Nei ég vill ekki meina það.  Munurinn er náttúrlega að ég er búinn að vera arfaslakur í vetur. 

En ég er að reyna sem er ekki alltaf auðvelt, maður þarf að setja á sig hitablástur á morgnanna og annað líkt.  

Hef auðvitað fengið á mig gagnrýni fyrir slaka spilamennsku í vetur en ég hefði líka getið tekið hinn pólinn á þetta og sagts vera frá þangað til ég væri orðinn góður af meiðslunum.  Ég hef þess í stað reynt að þrauka þetta meiddur og reynt að hjálpa liðinu.  Stundum hefur það verið í lagi en á öðrum stundum “way off”

 

Þú hefur ekkert hugleitt að fara ganga meira í síðbuxum?

Nei ég prófaði það um daginn en það var alveg skelfilegt.  Hinsvegar fór ég að taka Sport-þrennu um daginn, vantaði í mig vítamín og lýsi.

Auðvitað voru það margir aðrir hlutir. Ég tók ákveðna hluti í gegn hjá mér, mataræðið og hugsaði betur um líkamann á mér.

Það skilaði sér í því að ég gat æft betur og meira, komst í betra form og lappirnar lögðust í kjölfarið.  Margir hlutir sem spiluðu inn í.

Kannski ekki tipp-topp fyrir úrslitakeppnina en betri en ég hef verið.  Þó að lappirnar séu eitthvað betri þá hefur maður verið lélegur í allan vetur og spurning hvernig maður vinnur úr því.  Er ekki með neinn “ON” takka sem segir að maður sé bara allt í einu orðinn góður en þetta kemur smá saman.

 

Þú hefur stundum verið gagnrýndur fyrir að sýna ekki stórleiki í stóru leikjunum, hvernig leggst sú gagnrýni á þig?

Ég hlusta ekki á þetta.  Ég gagnrýni sjálfan mig alveg nógu mikið og mun meira en aðrir.  En ég veit það alveg að það hafa komið mikilvægir leikir þar sem ég hef ekki staðið mig.  

Það er hinsvegar ein gagnrýni sem þoli ekki og er almennt í loftinu í flestum íþróttum.  Það er sú gagnrýni að menn séu ekki að leggja sig fram.

Þetta eru einhverjir kaffibrúsakarlar sem halda því fram að íþróttamenn sem eru í þessu af lífi og sál leggji sig ekki fram fyrir liðið sitt.  Þetta er algjört kjaftæði.

Menn geta auðvitað verið lélegir, átt slæman dag, ekki hitt vel og annað. En að halda því fram að menn leggji ekki fram er bara vitleysa, ég trúi því allavega að menn gera allir sitt besta þó að útkoman geti verið mismunandi. Ekki þinn dagur eða ár eins og hjá mér en menn leggja sig 100% fram.