„Við erum í dauðafæri til að halda Grindavík áfram í fremstu röð sem íþróttabæ“

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Nokkur tímamót urðu núna í sumar þegar Kjartan Friðrik Adólfsson lét af störfum sem formaður unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Grindavíkur eftir 10 ára starf þar fyrir félagið. Smári Jökull Jónsson tók við formennsku á þessum tímamótum og tekur við góðu búi af Kjartani sem hafði starfað í unglingaráði ásamt nokkuð samhentum hópi á undanförnum árum. Við fengum Kjartan í spjall á þessum tímamótum og ræddum aðeins við hann um áhugann á körfuboltanum.

Ef við byrjum aðeins á þér sjálfum, hverjir eru þínir fjölskylduhagir?
„Ég er vel giftur henni Geirlaugu Geirdal og saman eigum við þrjú börn, þær Jenný Geirdal, Eddu Geirdal og lítinn engil hann Davíð Geirdal.“

Stundaðir þú sjálfur íþróttir í æsku?
„Á æskuárunum í Vestmannaeyjum lék ég mér talsvert í fótbolta. Að vísu voru engar skipulagðar æfingar á þeim tíma hjá börnum og unglingum þannig að ég keppti aldrei undir merkjum ÍBV. En við krakkarnir í hverfinu vorum dugleg að koma saman og spila innbyrðis. Fundum lítinn grasbala, þar sem peysur eða steinar voru notað sem stangir.  Þá klæddist maður oftar en ekki fagurgrænni peysu og var montinn að keppa undir merkjum stórliðsins Týs.“

Kjartan flutti til Grindavíkur í byrjun mars árið 1973 í kjölfar eldgossins á Heimaey.
„Eftir að ég kom til Grindavíkur hélt ég áfram í fótboltanum og keppti með Grindavík upp 2. flokk og æfði tvo vetur með meistaraflokki. Ég get ekki sleppt því að koma því að, að við urðum Suðurnesjameistarar í 2. flokki árið 1982. Ég æfði aldrei körfubolta en hið fræga skólavallargengi eyddi ófáum klukkutímum í körfubolta á skólalóðinni.“

Eins og áður segir flutti Kjartan frá Vestmannaeyjum eftir að eldgosið hófst í janúar 1973. Fyrst hafi fjölskyldan farið til Reykjavíkur en síðan endað í Grindavík.
„Húsið okkar var nýbyggt og fór nokkuð snemma undir hraun og ösku. Við vorum því eiginlega húsnæðislaus á þeim tíma. Pabbi þekkti ágætlega til hér þar sem hann hafði komið hingað á vertíðum. Okkur bauðst fljótt húsnæði og hann fékk vinnu í Vélsmiðjunni. Þannig að hér hef ég verið síðan.“

Þegar Kjartan kom inn í unglingaráð 2011 var það þó ekki í fyrsta sinn sem hann starfaði fyrir UMFG.
„Það vita það kannski ekki margir, en fyrsta aðkoma mín að störfum fyrir UMFG var 1993, þegar ég tók við sem formaður aðalstjórnar og gegndi því starfi til 1998. Ástæða þess að ég gerðist formaður var nokkuð óvænt. Á sama tíma og hið áðurnefnda skólavallargengi var að leika sér í körfubolta eitt sumarkvöldið var aðalstjórn UMFG að funda á efri hæð skólans með gott útsýni yfir skólavöllinn.“

„Að þeim fundi loknum kom þáverandi formaður UMFG, Björn Birgisson, að máli við mig í miðjum leik og spurði hvort ég væri ekki til í að taka við af honum. Jafn feiminn og ég var, þá hef ég örugglega ekki getað sagt nei. Allavega var ég orðinn formaður viku seinna“.

Áhugi Kjartan á körfubolta kviknaði fyrir alvöru öðru hvoru megin við 1980 og að þá hafi Grindavík ekki verið eins stórt nafn í íþróttinni eins og í dag.
„Þeir voru sennilega í 1. deildinni með margar fræknar kempur innanborðs. Þá fylgdist maður mest með Njarðvík og ÍS. Áhugi minn á að starfa í kringum körfuboltann kviknaði þó ekki að fullu fyrr en 2009 þegar eldri dóttirin fór að æfa. En báðar dæturnar hafa gengið upp alla yngri flokkana og eru nú leikmenn í Subway-deildarliði Grindavíkur, sú yngri er einnig í unglingaflokki,“ segir Kjartan. Jenný hefur leikið vel fyrir Grindavík í Subway-deildinni til þessa en Edda hefur átt við meiðsli að stríða og ekkert getað spilað með á þessu tímabili.

„Ég kom inn í unglingaráð vorið 2011 og gekk úr því síðasta vor. Þar sem eldri dóttirin var nýbyrjuð að æfa, þá fannst mér áhugavert að fá tækifæri til að kynnast út á hvað starfið gengi og fékk mér því göngutúr á fundinn. Í lok fundarins, sem var mjög áhugaverður, kom í ljós að þáverandi unglingaráð var allt að hætta og því vantaði nýtt fólk inn í ráðið.

Þar sem ég á yfirleitt erfitt með að segja nei, þegar leitað er til mín um ýmislegt félagsstarf, þá sagði ég já við því að koma nýr inn í ráðið þó það væri ekki ætlunin þegar ég tók göngutúrinn góða upp í skóla. Svo heppilega vildi líka til að vel gekk að manna stöður og vorum við einhver níu sem óðum út í óvissuna.“

Að sögn Kjartans þá snýst staða formanns unglingaráðs snúist aðallega um verkstjórn og að koma fram fyrir hönd ráðsins þegar við á.
„Starf unglingaráðs er í grunninn alla jafna ekki flókið eða átakamikið. Í stuttu máli eru helstu verkefni ráðsins, að koma fram fyrir hönd deildarinnar, sjá um ráðningar þjálfara yngri flokka og samskipti við þá. Eiga samskipti við forstöðumann íþróttamannvirkja, samskipti við KKÍ, umsjón með mótum yngri flokka sem deildin tekur að sér að halda. Sjá um fjármál unglingaráðs, bókhald og fjárhagslegt aðhald. Annast einnig samskipti við foreldra iðkenda. En auðvitað koma margvísleg önnur mál inn á borð ráðsins, tengd yngri flokka starfi, sem tekin eru til úrlausnar.

Ýmislegt hefur breyst með tímanum en sú stærsta breytingin hjá unglingaráði varð árið 2014 þegar fyrsti launaði yfirþjálfari yngri flokka var ráðinn.
„Það létti töluvert undir starfinu. Í fljótu bragði sé ég helstu breytingarnar þær, að gæði körfuboltans, metnaður og aðstaða hefur almennt batnað til muna. Iðkendum innan deildarinnar hefur fjölgað eins og áður sagði um ca. 30%. Sérstaklega hefur breytingin orðið meiri stúlknamegin. Til þess að viðhalda fjöldanum þurfum við að hafa hæfa og metnaðarfulla þjálfara. Þjálfararnir skipta mjög miklu máli þegar viðhalda á góðu starfi. Við höfum verið lánsöm með aðgengi að góðum og hæfum þjálfurum.“

Samvinna er afar mikilvæg að mati Kjartans sem er á því að deildir UMFG eiga að vinna vel saman þegar kemur að íþróttaiðkun barna og unglinga í Grindavík.
„Samstarfið er almennt mjög gott. Því þó íþróttaiðkun barna og unglinga sé góð, og framboð íþrótta gott í Grindavík, þá eru deildirnar allar að keppast um sömu einstaklingana. Ef við ofgerum krökkunum og þrýstum á þau að velja á milli íþróttagreina of snemma, þá bitnar það á öllum, ekki síst iðkendanum og leiðir hugsanlega til þess að einstakir flokkar ná ekki í lið.“

„Aðkoma foreldra að körfuboltastarfinu er mjög mikilvæg, þeir hafa veitt okkur nauðsynlegt aðhald í gegnum tíðina með ábendingum og einnig þökkum. Þeir hafa almennt verið duglegir að fylgja sínum börnum og taka þátt í starfinu, t.d. fjáröflunum og að manna unglingaráð.“

Kjartan er á því að framtíð körfuboltans í Grindavík sé björt:
„Við erum í dauðafæri til að halda Grindavík áfram í fremstu röð sem íþróttabæ. Aðstaða til körfuboltaiðkunar, bæði til æfinga og keppni hefur stórbatnað. Við erum komin með nýtt og glæsilegt íþróttahús, sem að vísu vantar herslumuninn á til að geta nýtt það til keppni í eldri flokkunum. Grindavíkurbær hefur stutt vel við UMFG og saman hafa aðilar skapað eftirtektarvert og að mörgu leyti öfundsvert æfingagjaldamódel.“

„Tækifærin liggja meðal annars í því, að hlúa áfram að yngri flokka starfinu og búa til hæfa einstaklinga bæði út í lífið sjálft og ekki síður út á körfuboltagólfið. Við þurfum líka að hlúa að meistaraflokkunum, því þeir eru „gulrótin“ og markmiðið sem yngri iðkendur líta upp til.“

Tímann sem formaður hefur langoftast verið skemmtilegur. Starf sjálfboðaliða sé krefjandi, erilsamt og á köflum vanþakklátt en einnig mjög gefandi.
„Þó við fáum oftar að heyra neikvæðar raddir og gagnrýni, þá fáum við líka hrós og klapp á bakið, eins og t.d. frá KKÍ 2014 eftir vel heppnaða bikarúrslitahelgi yngri flokka hér í íþróttahúsinu. Við reynum alltaf að leysa úr öllum málum á sem besta veg, þó því miður geti niðurstaðan ekki alltaf verið eins og menn vonuðust eftir.“

„Í svona starfi þarf maður að vera fljótur að læra og hlusta. Læra að gagnrýni þýðir ekki endilega árás, læra að skoðun annarra geti verið rétt þó svo að þú sért ekki sammála. Læra að hvöss framsetning á skoðun getur verið vel meint.“

Kjartan segir að það sé svo alltaf ánægjulegt þegar góður árangur næst.
„Á þessum tíu árum vorum við svo lánsöm að fjöldi Íslands- og bikarmeistaratitla skiluðu sér í hús. Nú síðast í stúlknaflokki í maí síðastliðnum hjá árgöngum 2002-2005. Jafnframt hefur fjöldi leikmanna verið valdir til að spila fyrir Íslands hönd í yngri landsliðunum. Þó árangur sé ekki eingöngu mældur í titlum, þá næst árangur ekki nema með góðri samvinnu.“

„Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsfólki í unglingaráði, skemmtilegt samstarf og viðkynningu. Ég vil jafnframt þakka stjórnamönnum í aðalstjórn körfuknattleiksdeildarinnar gott samstarf.“

Þrátt fyrir að vera hættur sem formaður unglingaráðs er Kjartan þó ekki alveg sestur í helgan stein í störfum sínum fyrir UMFG því hann hefur átt sæti í aðalstjórn síðan 2015. Hann segir störfin í grunninn keimlík.

„Fyrir mig persónulega, þá er helsti munurinn sá að það er meiri „afslöppun“ að vera ekki formaður,“ segir Kjartan að lokum með bros á vör.

Grein birt í Leikjaskrá Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur 2021