Arna Sif Elíasdóttir er fædd árið 2001 sem gerir hana eina af elstu leikmönnum liðsins. Það segir kannski margt um það hversu ungur hópurinn okkar í Subway-deildinni er í vetur þegar tvítugur leikmaður er ein af öldungum hópsins. Arna er uppalin hjá félaginu, miðherji á pappírunum en hikar ekki við að láta þristunum rigna þegar hún kemst í opin færi. Arna er í mikilvægu hlutverki í okkar unga og efnilega liði, gríðarlega öflugur varnarmaður og skilur alltaf allt sitt eftir á vellinum fyrir félagið. Við fengum Örnu til að svara nokkrum spurningum um körfuboltann og ýmislegt fleira.
Hvernig finnst hefur tímabilið farið af stað fyrir liðið? Mér finnst tímabilið hafa farið þokkalega af stað fyrir okkur, erum að bæta okkur mikið sem lið þó að niðurstöður leikjanna sýni það kannski ekki alveg.
Hvað er helsti munurinn á því að spila í efstu deild og 1. deild? Munurinn á þessum deildum er mikill. Töluvert sterkari, stærri og betri leikmenn eru í efstu deild. Varnarleikurinn er harðari í efstu deild sem gerir þetta samt ennþá skemmtilegra.
Hvernig er svo stemningin í og markmið liðsins? Stemmingin er góð náum vel saman, markmiðin okkar eru svona helst að bæta okkur með hverjum degi og hverjum leik sem við spilum.
Hver eru þín markmið í vetur og svo í framhaldinu í körfuboltanum? Markmiðin mín í vetur eru að gera allt sem ég get gert fyrir liðið mitt til að bæta okkur, vil skilja allt sem ég hef eftir á vellinum og hafa gaman.
Þú spilar með höfuðband. Er það eftir að hafa hlotið höfuðmeiðsli fyrr á ferlinum? Já ég fékk heilahristing í leik fyrir 3 árum, hef reglulega eftir það fengið höfuðhögg sem hafa sent mig i mislangar pásur. Fékk bandið svo að ég geti varið gagnaugað báðum meginn fyrir höggum.
Þorleifur tók við liðinu í sumar. Hvernig finnst þér að spila fyrir hann og Bryndísi? Finnst það geggjað. Fýla þau bæði í botn og metnaðurinn í þeim er mikill.
Hópsneshringurinn
Fullt nafn: Arna Sif Elíasdóttir
Gælunafn: Hef ekkert gælunafn
Aldur: 20 ára
Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: Minnir að það hafi verið 2016
Uppáhalds drykkur: RedBull
Uppáhalds matsölustaður: Dominos
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Dexter eða Game of Thrones
Uppáhalds tónlistarmaður:The Weeknd
Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Oreo, Kökudeig og Smarties
Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Uuu Carmen Tayson mætti henni þegar að hún spilaði með Njarðvík 2016-2017
Besti þjálfari sem hefur þjálfað þig: Úff veit ekki hver það ætti að vera
Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Kaninn sem var í Njarðvík síðasta tímabili; Chelsea Nacole
Sætasti sigurinn: Sigurinn á Njarðvík í síðasta leiknum í úrslitakeppninni í fyrra, að koma til baka eftir að vera 2-0 undir í seríunni og vinna svo 3-2 var geggjað
Mestu vonbrigðin: Tapa í 4 liða í bikarnum í stúlknaflokki á móti KR fyrir 2 árum.
Uppáhalds lið í NBA: Lakers
Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Helena Sverrisdóttir
Hver er skemmtilegastur í klefanum: Verð að gefa Sædísi þann heiður en margar sem koma til greina
Uppáhalds staður á Íslandi: Akureyri
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Kíkja í símann minn
Fyrir utan körfubolta, fylgist þú með öðrum íþróttum: Sko ekki beint en fylgist mikið með fimleikum og dýfingum þegar að það eru Ólympíuleikar.
Í hvernig körfuboltaskóm spilar þú: Lebron 18
Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Held að stærðfræðin taki það
Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Sædísi, Heklu og Huldu gæti orðið eitthvað skrautlegt ævintýri.
Hverju laugstu síðast: Sagði við Lalla að ég væri heil á æfingu þegar hann spurði hvort ég væri í lagi
Hvað er leiðinlegast að gera á æfingum: Sendingaræfingar þar sem það þarf virkilega að fylgjast með svo maður fái ekki boltann í hausinn
Grein birt í Leikjaskránni 2021