Vaknaðir!

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Eflaust var mörgum Grindvíkingnum létt eftir leik kvöldsins gegn Njarðvík því eftir 2 tapleiki í röð og nokkra dapra leiki fram að því, var risið kannski ekkert of hátt….

En flestum ef ekki öllum spurningum var svarað í kvöld og vel það!  Frábær leikur hjá okkar mönnum og greinilegt að þeir eru búnir að reka af sér slyðruorðið ef eitthvað var!  Eflaust má flokka efasemdirnar undir ansi mikið panik því liðið hefur verið frábært í vetur og þótt við höfum ekki alltaf spilað eins og Lakers, þá höfum við verið að vinna þessa leiki.  En í kvöld spiluðum við frábærlega og það var aldrei nokkur einasta spurning um útkomuna.

Fyrst og síðast var vörnin frábær sem sést best á skori Njarðvíkur í 3 fyrstu leikhlutunum, 14, 12 og 13…..  En á sama tíma var sóknarleikur okkar frábær að mínu mati.  Mér fannst við nánast alltaf vera með galopin skot, sama hvort það var utan af velli eða inn í teig eftir frábær hlaup og sendingar.  Eins og ég segi, frábær leikur.  Kannski vilja einhverjir gera lítið úr mótspyrnunni en flott lið Njarðvíkinga sem ástæða er til að taka hatt sinn ofan fyrir, þar sem þeir treysta á ungviðið sitt, hefur unnið marga leiki í vetur.  Margir spáðu þeim falli en þeir eru inni í úrslitakeppninni eins og sakir standa og geta treyst á sig sjálfa í þeirri baráttu en ef þeir tapa í lokaleik sínum gegn Tindastóli og Fjölnir vinnur Keflavík, þá verður Fjölnir keppinautur okkar í 8-liða úrslitunum.  Ef Njarðvík hins vegar vinnur Tindastól með 9 stigum eða meira (fyrri leikur liðanna í Njarðvík fór 85-93 fyrir Tindastól) þá verða stólar sjóhundsins Bárðar Eyþórssonar, okkar keppinautar.  Ég er ekki frá því að ég styðji Bárð vin minn í þessum leik…..  (talsvert þægilegra að keyra í Njarðvík en á Sauðárkrók….)

Aftur að leik kvöldsins.  Við vorum frábærir.  Það virtist vera miklu meiri gleði ríkjandi hjá okkar mönnum og var greinilegt að menn mættu afslappaðir til leiks og höfðu gaman af því að spila körfubolta.  Ég á erfitt með að taka einstaka leikmenn út úr jöfnunni en Bullock var stigahæstur með 25 stig.  Manni hefur fundist nautið hafa verið rólegt í undanförnum leikjum en hann er einfaldlega mjög illviðráðanlegur.  Paxel var flottur og með miðið í lagi og setti 16 stig.  Merkilegt nokk þá fóru ekki fleiri leikmenn yfir hinn rómaða 10 stiga múr en ca 16 leikmenn döðruðu við hann….

Yfir höfuð frábær leikur hjá okkar mönnum og vonandi það sem koma skal núna þegar alvaran fer að hefjast.  General-prufan fyrir úrslitakeppnina verður á fimmtudaginn gegn Stjörnunni og nú vil ég sjá STUÐNINGSMENN liðsins mæta á þann leik og við förum að stilla strengina fyrir úrslitakeppnina.  Stuðningur okkar úr stúkunni er gulls ígildi og verðum við einfaldlega að bæta við tönn núna eins og leikmenn eru að gera.

Sjáumst með blóðbragð í munni á fimmtudaginn í Röstinni kl. 19:15!

Áfram Grindavík!