Úrslit í Lengjubikar á móti Keflavík

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík tryggði sér farseðilinn í úrslitaleik Lengjubikarsins eftir sigur á Þór frá Þorlákshöfn í gær í DHL-höll KR-inga.  Mótherjinn í úrslitaleiknum verður Keflavík og fer leikurinn fram á sama stað og hefst kl. 16:00

Sigurinn á móti ÞorlákshafnarÞórsurum var athyglisverður.  Eftir nokkura mínúta leik sýndist mér stefna í sömu rassskellingu og við veittum KR-ingum á sama stað fyrir rúmri viku.  Tölur eins og 21-7 sáust og var vörnin alveg frábær og sóknarleikurinn ekki síðri.  J´Nath sjóðandi heitur hvort sem var í skotum utan af velli, inni í teig eða í hraðupphlaupum, alveg hreint frábær leikmaður sem bætir sig með hverjum leiknum.  Staðan eftir 1. leikhluta 28-17 og kom mikið af stigum Þórs í lok leikhlutans þegar þeir voru byrjaðir að snúa taflinu við.  Okkar menn sáu síðan vart til sólar í 2. leikhluta og komst Þór yfir um tíma en þeir unnu leikhlutann 23-14.  Athyglisvert hvernig þessi yndislegi körfubolti getur verið, hvað olli þessum viðsnúningi??  Væntanlega var það vörnin hjá Þór sem breytti gangi mála en út af hverju þurftum við að gefa eftir í okkar varnarleik??  Það var nefnilega ekki þannig að Þórsarar hefðu skorað mikið úr hraðupphlaupum heldur skoruðu þeir í “venjulegum” sóknum en nokkrum mínútum fyrr höfðu þeir hvorki komist lönd né strönd gegn okkur….  Magnað…

Helgi hefur væntanlega smellt nettri hárþurrku í andlitið á sínum mönnum í hálfleik því allt annað var að sjá til Grindavíkurliðsins og vörnin áfram aðallinn.  Við héldum Þór þá í 15 stigum í 3. leikhluta en skoruðum reyndar ekki nema 18 stig sjálfir og leiddum því með 5 stigum fyrir lokabaráttuna en í 4. leikhluta sýndum við hverjir hafa valdið og sigum fram úr.  Settum 20 stig en fengum bara 11 á okkur…..  Við skoruðum 28 stig í 1. leikhluta en héldum Þór í 26 í seinni hálfleik….  Frábær vörn en sóknin hefur oft verið þjálli og lentum við oft í hinu mesta basli með svæðisvörn Þórsara og það er eitthvað sem Helgi er væntanlega að láta sig dreyma um í þessum skrifuðu orðum, hvernig leysa beri.

Bullock var okkar besti maður sóknarlega og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.  Ef hann ætlar að halda áfram að bæta sig leik frá leik þá verður verulega spennandi að sjá hvernig kappinn verður…..  Hann er að verða nett óstöðvandi en ég hef áður lofsungið hann og nenni ekki að koma með sama söng aftur en hann er þvílíkur happafengur fyrir okkur.  Hann skoraði 25 stig, tók 17 fráköst og varði 4 skot í gær, ekki amalegar tölur….

Siggi var sömuleiðis frábær með 14 stig, 15 fráköst, 8 vörð skot og 4 stolna.  Hann pakkaði næst frákastahæsta manni deildarinnar, Michael Ringold algerlega saman!

Óli steig skemmtilega upp í lokin og setti þá 2 stóra þrista niður sem slökktu í raun síðasta vonarneista Þórsaranna.  Óli endaði með 14 stig og 3 vörð skot.

Vert er að minnast á Jóhann Ólafs en lítið hefur farið fyrir honum í skrifum mínum til þessa þar sem hann hefur ekki mikið verið að trana sér fram í tölfræðinni.  Hann var svo sem við sama heygarðshornið skotlega séð í kvöld og verður frábært þegar hann finnur virkilega fjölina sína, en hann skilaði hæstu framlagi þegar mið er tekið af því hvernig liðinu gekk á meðan viðkomandi leikmaður var inni á vellinum.  Grindavík vann þær mínútur sem hann spilaði með 28 stigum svo það er alveg greinilegt að Jói er að gera eitthvað rétt!

Í lokin vil ég minnast á og hrósa aðdáendum Þórsara.  Ég fékk nett “flashback” frá því að við unnum KR í 3. leiknum um Íslandsmeistaratitilinn 2009 en þá vorum við grindvískir aðdáendur, frábærir.  Þórsararnir eru svona held ég á öllum leikjum!  Ca 20 manna kjarni ungra og vaskra drengja sem syngja og hvetja sína menn áfram og jafnvel eftir að leikurinn var endanlega tapaður, þá voru þeir ennþá að syngja!  Þetta megum við taka okkur til fyrirmyndar.  Það eru ekki ný vísindi að svona stuðningur hjálpar liðinu okkar.  Því vil ég hvetja alla til að mæta á úrslitaleikinn á móti nágrönnum okkar úr Keflavík og gera meira en að mæta, láta líka í sér heyra!

Áfram Grindavík!