Úrslit helgarinnar

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Karla og kvennalið Grindavíkur í körfuknattleik áttu útileiki um helgina.  Strákarnir sóttu KFÍ heim í opnum sóknarleik sem endaði 122-94.

Stelpurnar sóttu Val heim en töpuðu í spennandi leik gegn liðinu sem spáð er Íslandsmeistaratitli.

Umfjöllun karfan.is á KFÍ-Grindavík

KFÍ og Grindavík mættust í gær í Domino’s deild karla á Ísjakanum á Ísafirði. Upprunalega átti leikurinn að fara fram á föstudag en var frestað þar sem ekki var flogið vestur. Var hann því settur á í gær við litla hrifningu Ísfirðinga sem sóttust eftir að fá hann á sunnudeginum kl 19:15 líkt og KKÍ auglýsti fyrst en þeir töldu að tímasetningin myndi hafa neikvæð áhrif á fjölda áhorfenda á leiknum.

 
 
Ísfirðingar léku án Ágústar Angatýssonar sem var fjarverandi vegna barnsburðar konu sinnar en í stað hans byrjaði Jóhann Jakob Friðriksson inn á í fyrsta sinn á ferlinum.
 
Leikurinn var gríðarlega hraður allan fyrri háflleik enda virtust bæði liðin vera að keyra “7 sekúndur eða minna” sóknarleikinn sem Phoenix Suns var þekkt fyrir í NBA deildinni fyrir nokkrum árum.
 
Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson reyndist uppeldisliði sínu erfiður í byrjun leiks og setti niður 10 stig á fyrstu 11 mínútum leiksins auk þess sem hann lagði upp nokkrar körfur í viðbót fyrir samherja sína.
 
Ísfirðingar héldu sér þó inni í leiknum og gott betur í fyrri hálfleik með svakalegri sýningu fyrir utan þriggja stiga línuna en þeir settu niður 10 af 19 þristum sínum í hálfleiknum. Þar af komu sex stykki í röð á fyrstu fjórum mínútum annars leikhluta þegar þeir náðu sjö stiga forustu, 46-39. Eftir það hægðist aðeins á leiknum og Grindavík leiddi í hálfleik 53-56.
 
Hjá KFÍ var Jason Smith kominn með 21 stig í Hálfleik og Mirko Stefán 17 stig. Jóhann Ólafsson var kominn með 16 stig fyrir Grindavík, Lewis Clinch 13 og Sigurður Þorsteinsson 10.
 
Þegar skammt var liðið á þriðja leikhluta fékk Jason Smith sína fjórðu villu og fór á bekkinn. Eftir það skildu leiðir því Grindvíkingar settu í fluggír og án Jason hafði KFÍ ekki lengur nógu mikinn sóknarkraft til að halda í við þá. Jóhann Ólafsson fór á kostum og Earnest Lewis Clinch setti niður hverja körfuna á fætur annari en hann var með 25 stig í seinni hálfleik.
 
Í fjórða leikhluta var ljóst hvert stefndi og fengu minni spámenn að spreyta sig.
 
Hjá KFÍ átti Mirko Stefán frábæran leik en hann var með 34 stig og tók 11 fráköst. Jason Smith setti 23 stig og gaf 8 stoðsendingar, unglambið Pance Ilievski kom næstur með 9 stig og nýliðinn Jóhann Jakob Friðriksson bætti við 8 stigum og 5 fráköstum. Það var bersýnilega ljóst að þeir söknuðu Ágústar mikið í leiknum en hann hefur verið þeirra besti varnarmaður undir körfunni í vetur auk þess að vera þriðji stigahæstu maður liðsins.
 
Hjá Grindavík voru Earnest Lewis Clinch og Jóhann Árni Ólafsson óstöðvandi en þeir settu 38 og 30 stig. Ísfirðingurinn í Grindavíkurliðinu, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, kom næstur með 12 stig á rúmlega 18 mínútum.”

Tölfræðin

 

Umfjöllun um leik Vals og Grindavík á visir.is

Valur vann Grindavík í Dominos deild kvenna í körfubolta í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi en ótrúleg hitni Vals um miðbik fjórða leikhluta skildi á milli þegar yfir lauk. Grindavík var einu stigi yfir í hálfleik 34-33.

Það var hart barist strax í upphafi og varnir liðanna í aðalhlutverki. Aðeins 29 stig voru skoruð í fyrsta leikhluta en Valur var yfir að honum loknum 16-13.

Jafnt var á öllum tölum en Grindavík náði þó mest sex stiga forystu í öðrum leikhluta 30-24. Það forskot dugði þó ekki lengi því Valur minnkaði muninn í eitt stig fyrir hálfleik 34-33.

Grindavík náði frumkvæðinu í þriðja leikhluta og náði mest sjö stiga forystu 53-46 en Valur náði að jafna leikinn fyrir fjórða leikhluta með sjö síðustu stigum þriðja leikhluta. Frábær vörn liðsins auk þess sem Þórunn Bjarnadóttir var sjóðandi heit fyrir utan þriggja stiga línuna skilaði því að Valur jafnaði og allt var í járnum fyrir síðasta fjórðunginn.

Valur hóf fjórða leikhluta af krafti og komst fimm stigum yfir 58-53 en þá hafði liðið skorað 12 stig í röð. Valur náði ellefu stiga forskoti þegar rúmar tvær mínútur voru eftir 71-60 þegar Unnur Lára Ásgeirsdóttir hitti úr tveimur þriggja stiga skotum í röð og Hallveig Jónsdóttir einu til viðbótar og reyndist það of stór biti fyrir lið Grindavíkur sem saknaði Pálínu Gunnlaugsdóttur sem er meidd.”

Myndasafn frá Valsleiknum

Tölfræðin