Tvöfaldur sigur í kvöld!

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Ég kalla pistil kvöldsins tvöfaldan sigur því bæði unnum við Þórsara inn á vellinum og Gulir Grindjánar höfðu betur gegn Græna dreka Þórsaranna í stúkunni.

Meira um það í lok þessa pistils og strax að þessum fyrsta leik sem varð háspennuleikur og endaði 93-89.  Staðan því orðin 1-0 fyrir Grindavík en 3 leiki þarf til að lyfta þeim eftirsótta!

Grindavík byrjaði leikinn miklu betur og í stöðunni 14-4 tók Benni leikhlé.  Það leikhlé gekk greinilega upp því áður en varði var staðan orðin 18-18!  Leikurinn var síðan jafn þar til skammt lifði fyrri hálfleiks en þá náðum við okkur í þægilegt forskot og leiddum 56-44 í hálfleik.  

Við byrjuðum seinni hálfleikinn betur en Þórsarar gáfust ekki upp og var 3. leikhlutinn í járnum og munaði 10 stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn.  Þegar þarna var komið við sögu höfðu Þórsarar tekið upp svæðisvarnarvopnið sitt og beit það vel á okkur og það vel að þeir settu leikinn í jafnræði þegar nóg var eftir!  Hittni þeirra úr 3-stiga skotum var lygileg oft á tíðum, ekki síst í lokafjórðungnum.  Þeir hefðu getað komist yfir í lokin en við náðum að halda haus og leiðum því einvígið eftir fyrsta leik.

Bullock var frábær í kvöld og átti tilþrif kvöldsins þegar hann tróð yfir Grétar Erlendsson með miklum glæsilbrag!  Gullitaða stúkan hreinlega trompaðist!  Bullock skoraði 29 stig og tók 9 fráköst.

Watson var sömuleiðis frábær og setti 16 stig og gaf 13 stoðsendingar og sumar þeirra voru af dýrari gerðinni!

Jói Ólafs fann heldur betur fjölina sína í kvöld og setti 14 stig og var sjóðandi heitur í skotunum fyrir utan.  Verulega góðar fréttir fyrir okkur ef framhald verður á þessu!

Lalli heldur sínum góða leik áfram og var með 12 stig og 4 stoðsendingar.

Siggi Þorsteins var sá síðasti til að skríða yfir 10 stiga múrinn og skilaði 10 stigum og 6 fráköstum.  Hann opnaði leikinn með miklum style, með tröllatroðslu!

Ryan var sömuleiðis frábær og er aðdáunarvert að sjá dugnaðinn í kappanum!  Skoraði 8 stig, m.a. 2 troðslur og undantekningarlaust var hann mættur fyrstur á vaktina í vörninni!  Ætli hann sé kannski ofvirkur??

Paxel var óheppinn með skot sín en steig upp á réttum tímapunkti þegar Þórsrar voru komnir óþægilega nærri og setti þá eina þristinn sinn niður.  Ég er viss um að þeir munu verða mun fleiri.

Bjössi og Ómar komu aðeins við sögu og náðu að koma sér á tölfræðiskýrsluna, Ómar með 2 flottum fráköstum og Bjössi með flottum stolnum bolta (ég veit að Bjössi fær ekki skráðan á sig þennan stolna bolta en ég sá það!)

Nóg um frammistöðu leikmanna og að máli málanna….

Við Grindjánar í stúkunni stóðum okkar plikt heldur betur vel í kvöld og vill einn helsti körfuboltapenni landsins, Jón Björn á karfan.is og annar spekinga betri hlutans (karfa vs. handbolti) í Íslenska boltanum á Rúv, meina að við höfum þaggað niður í Græna dreka Þórsaranna!  Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa flottu stuðningsmenn Þórsaranna en þeir mættu einfaldlega ofjörlum sínum í kvöld!  Ég hitti tvo Þórsara í hálfleik og þeir voru svekktir að sjá ekki meiri mætingu sinna manna en sá leiðinlegi misskilningur var í gangi að uppselt væri á leikinn!  Það var vissulega vel mætt en það verður seint uppselt!!  Svo kæru Þórsarar, endilega keyrið þennan stutta spotta og komið í stemninguna á sunnudaginn!

En það er ljóst að Þorlákshafnarbúar munu fjölmenna á leikinn á fimmtudaginn og við Grindvíkingar þurfum að vera tilbúnir í aðra baráttu þá!

Eins og þið sjáið hér fyrir neðan, er hægt að commenta á þessa pistla og vil ég sjá sjónarmið ykkar varðandi hvernig við eigum að haga stuðningnum.

Allir eða flestir, fengu gul blöð afhent fyrir leik en á þessum blöðum eru stuðningstextar um leikmenn.  Oft á tíðum náðist hörkugóð þátttaka og ef ég á að segja fyrir mitt leyti, þá finnst mér miklu skemmtilegra að syngja baráttusöng um leikmann en að garga í sífellu “Grindavík!” og klappa svo!  Það er nauðsynlegt inn á milli en mér finnst miklu skemmtilegra að syngja.  Lögin henta vissulega misvel og gekk áberandi best að syngja um Jóhann og Lalla og er ljóst að söngvarnir mega ekki vera meira en ein lína og klárlega skemmir ekki fyrir ef lagið er þekkt.  En aðalatriðið er þátttakan og það er ljóst að erfitt er fyrir nokkrar hræður að halda söngnum gangandi og finnst mér bara að þið kæru stuðningsmenn, getið tekið betur undir því það er ekki eins og um flókin lög sé að ræða.  Þeim mun fleiri sem mynda kórinn, þeim mun háværari og betri verður hann!

Það væri gaman að fá ykkur sjónarmið hér.

Að sjálfsögðu verður meira skrifað fyrir leikinn á fimmtudaginn og væntanlega verður forsala í gangi og verður hún auglýst hér, á fb-síðunni og á grindavik.is.

Áfram Grindavík!