Tvískinnungur Stjörnumanna???

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Ég lofaði pistli fyrir leik kvöldsins sem reyndar hefst eftir rétt tæpar 2 klst svo kannski les þetta enginn áður en haldið verður á leikinn….  En betra er seint en aldrei ekki rétt??  Og á maður ekki að standa við loforð??  Svo eruð þið kannski og líklega bara ekkert að bíða eftir þessum pistli mínum og nennið ekkert að lesa skrif mín hvort sem er og þá bara hættið þið lestri núna…. 🙂

En ég kalla þennan pistil Tvískinnung Stjörnumanna vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í gangi um brot Fannars Helgasonar, fyrirliða liðsins í oddaleiknum gegn Keflavík um daginn.

Ég tek skýrt fram að þessi skrif mín þurfa ekki að endurspegla hug stjórnarmanna hjá kkd.umfg, hér er einungis um mínar vangaveltur að ræða.

Eins og flestir vita kærðu Stjörnumenn Magnús Gunnarsson, leikmann Keflavíkur fyrir olnbogaskot hans á Marvin Valdimarsson.  Stjörnumenn vildu meina að brotið hafi verið viljaverk af hálfu Magnúsar og létu því reyna á eina af reglugerðunum og vonuðust væntanlega til þess að KKÍ myndi dæma Magnús í bann í oddaleiknum.  KKÍ dæmdi að um óviljaverk hafi verið að ræða af hálfu Magnúsar og gat hann því leikið leikinn.  Í oddaleiknum átti sér stað mun alvarlegra brot af hálfu Fannars Helgasonar, fyrirliða Stjörnunnar þar sem hann gaf Vali Valssyni 2x olnbogaskot.  Dómarar leiksins sáu ekkert athugavert og því var það í hendi Keflvíkinga að kæra eða ekki.  Skv. því sem ég hef lesið vilja Keflvíkingar að KKÍ taki beint á svona máli en ég er sammála KKÍ en yfirlýsingu þeirra varðandi málið má finna á karfan.is, http://www.karfan.is/frettir/2012/04/10/yfirlysing_fra_stjorn_kki

Keflvíkingar ákváðu svo að láta reyna á Stjörnumenn í þessu máli og sjá hvað þeir myndu aðhafast.   Ef Stjörnumenn hefðu verið samkvæmir sjálfum sér þá hefðu þeir sett Fannar á ís í kvöld og látið hann ekki spila því eins og þeir vildu fá Magnús í bann þá myndu þeir væntanlega sætta sig við bann á Fannar fyrir mun alvarlegra brot.  Stjörnumenn tóku í staðinn þann pól í hæðina að taka fyrirliðabandið af Fannari……   Þetta er með því lélegra sem ég hef séð lengi!  Fannar er og verður nákvæmlega sami fyrirliðinn í liðinu, hvort sem hann ber fyrirliðabandið eða ekki.  Fróðlegt verður að sjá hvort þessi leikur Stjörnumanna falli Keflvíkingum í geð og málinu sé þar með lokið.

Ekki má skilja þessi skrif mín á þann hátt að ég óski Fannari þess að fara í bann og ég hræðist Stjörnumenn fyrst hann verður með.  Langt í frá!  En réttlætiskenndin í mér lætur stundum á sér kræla og finnst mér bara vera nettur fnykur af þessu máli.  Þátttaka Fannars mun ekki ríða baggamuninn í leiknum í kvöld, án þess að ég taki nokkuð frá honum, hann er duglegur og góður leikmaður að mínu mati.  Í mínum huga er það eina sem skiptir máli hvernig við mætum til leiks.  Ef við mætum tilbúnir til leiks þá eru okkur allir vegir færir en þannig höfum við leikið að undanförnu og hafa úrslitin þá líka verið á eina leið.

Liðin hafa mæst 2x í vetur og unnum við í bæði skipti.  Eftir fyrri sigurinn í Garðabænum breyttust liðin talsvert því Stjörnumenn fengu þá Jovan til baka og við bættum Ryan Pettinella við.  Fullmönnuð mættust liðin í næst síðustu umferðinni og þar hafði Stjarnan að miklu að keppa en við þá þegar búnir að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn.  Um hörkuleik var að ræða sem við unnum eins og áður sagði.  En ný keppni er komin í gang og má segja að við eigum harma að hefna síðan í fyrra þegar Stjarnan sló okkur út í 8-liða úrslitunum.  Ljóst að hart verður barist og má búast við fjölmenni úr Garðabænum en u.þ.b. 300 Garðbæingar fylgdu liðinu í leikinn í Keflavík um daginn í 8-liða úrslitunum.  Væntanlega er mjög raunhæft að búast við þeim fjölda að minnsta kosti.  Því þurfum við Grindvíkingar að mæta!  Þar sem stutt er í leikinn í þessum skrifðuðu orðum ætla ég að segja þetta gott í bili og skrifa svo eftir leikinn í kvöld.

Áfram Grindavík!