Þorleifur ráðinn þjálfari kvennaliðs Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Þorleifur Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Grindavík sem mun leika í Dominos-deild kvenna á næstu leiktíð. Þorleifur gerir samning til næstu þriggja ára og tekur við liðinu af Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem þjálfaði liðið í vetur.

Þorleif eða Lalla þarf vart að kynna fyrir Grindvíkingum. Hann hefur verið lykilmaður í grindvískum körfuknattleik um árabil og leiddi karlalið Grindavíkur sem fyrirliði til Íslandsmeistaratitla árin 2012 og 2013. Einnig hefur hefur hann unnið tvo bikartitla sem leikmaður.

„Þetta er mjög spennandi áskorun og ég hlakka til að hefjast handa. Stelpurnar stóðu sig frábærlega í vetur og ég tek við frábæru búi af Ólöfu Helgu,“ segir Þorleifur.

„Við ætlum okkur að byggja ofan á þennan góða árangur sem náðist í vetur og stimpla okkur aftur inn sem gott lið í Dominos-deildinni á næstu leiktíð.“

Kkd. Grindavíkur lýsir yfir mikilli ánægju með að fá Þorleif til starfa sem aðalþjálfari kvennaliðsins. Mikil ánægja hefur verið með hans störf sem þjálfari hjá yngri flokkum félagsins og er þarna á ferðinni efnilegur þjálfari sem nær vel til leikmanna. Þorleifur var einnig aðstoðarþjálfari mfl. karla sl. vetur.

Nú þegar er hafin vinna við að setja saman öflugt lið fyrir næstu leiktíð ásamt því að ganga frá ráðningu á aðstoðarþjálfara. Vonandi er frekari frétta að vænta á næstu dögum.

Áfram Grindavík!