Þór 75 – Grindavík 89

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík er komið í undanúrslit í Dominosdeild karla eftir sigur á Þór í gærkveldi.  Grindavík mætir því Njarðvík og fyrsti leikurinn er á föstudaginn næstkomandi.

Eins og í hinum þremur sigurleikjum Grindavíkur og Þórs í þessari rimmu þá var það góður endasprettur sem gerði útslagið í leiknum í gær.  Leikurinn var jafn lengi vel og heimamenn jafnvel betri aðilinn í fyrri hálfleik.  Betri varnarleikur og keyrsla inn á körfuna í seinni hálfleik gerði mikið fyrir okkar menn og sigruðu að lokum nokkuð örugglega 89-75.

Þriggja stiga hittnin var afleidd í gær, í fyrri hálfleik skutu okkar menn 9 sinnum á körfuna fyrir utan en aldrei fór boltinn ofan í. Spenna var greinilega í báðum liðum því Þór skoraði bara eina þriggja stiga körfu úr 13 skotum.  Betri árangur náðist með að keyra inn að körfunni og sérstaklega eftir að Sigurður náði að draga Ragnar frá körfunni með góðum skotum utan að velli.  Sigurður átti annars mjög góðan leik og sinn besta í þessu einvígi, endaði með 24 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Grindavík er því komið hóp 4 bestu liða og eru þremur sigurleikjum frá úrslitarimmunni sem þeir hafa verið í síðustu ár.  Fyrsti leikurinn gegn Njarðvík er á föstudaginn klukkan 19:15 í Grindavík.