Sagan á bakvið eitt besta stuðningsmannalag allra tíma
Grein eftir Siggeir F. Ævarsson
Að búa til gott stuðningsmannalag er mikil kúnst. Margir hafa spreytt sig á þessu verkefni í gegnum tíðina en fá lög, á landsvísu hreinlega, hafa fest sig jafn rækilega í sessi og lagið okkar, Og þeir skora. Greinarhöfundur var 11 ára þegar fyrri gullöld körfuboltans í Grindavík stóð yfir og fullkomnaðist með titlinum 1996. Þá voru það þrír órjúfanlegir fastar sem allir tengdu sterkt við Grindavík: Gummi Braga, Sigga Guðlaugs og svo lagið ódauðlega, Og þeir skora. Ég settist niður með söngvara lagsins, látúnsbarkanum Dagbjarti Willardssyni, og við fórum aðeins yfir söguna á bakvið lagið. Kom þá á daginn að það var margt í sögunni sem greinarhöfundur hafði aldrei heyrt um.
Margir tengja þig þráðbeint við lagið, enda söngst þú það, en þú átt samt ekki heiðurinn af því að hafa samið lagið er það?
Nei, ég verð að gefa þann heiður frá mér! Hugmyndin kom frá Dunna (Innskot blm: Guðna Ölverssyni) sem var formaður körfuknattleiksdeildarinnar á sínum tíma. Hann fékk vin sinn Matthías Kristiansen til að semja lag og texta.
Ég vissi í raun ekkert af þessu öllu saman og hafði aldrei heyrt lagið þegar ég fékk símtal þar sem ég var spurður hvort ég væri til í að mæta í stúdíó og syngja stuðningsmannalag fyrir Grindavík. Þegar ég mætti voru Almar, Gummi og Tommi úr Geimförunum búnir að taka upp undirspilið og á þessum tímapunkti hafði ég fyrst og fremst verið að syngja í “cover” hljómsveitum svo að það var smá áskorun að mæta og syngja lag sem ég hafði aldrei heyrt, en ég held nú að útkoman hafi verið ágæt að lokum.
Eftir að þessar upplýsingar komu fram var ekkert annað í stöðunni en að hafa samband við Guðna og Matthías!
Guðni: Daddi er góður drengur en það er ofsögum sagt að ég hafi verið heilinn á bak við þetta. Hins vegar datt mér í hug að gaman væri að eignast gott stuðningslag. Ég fékk vin minn, Matthías Kristiansen, til þess að semja lag. Hann samdi Grindavíkurlagið á ca. 10 mínútum á kennarastofunni í Öldutúnsskóla. Hitt lagið er gamalt lag frá hljómsveitinni Who sem Gísli Ásgeirsson samdi íslenskan texta við. Það tók álíka langan tíma og Matti notaði í að semja lagið.
Hitt lagið?
Já. Við gerðum tvö lög þarna. Tókum bæði lögin á sama degi og settum þau á kassettu sem lengi var notuð og rokseldist á sínum tíma. (Innskot blm: Matthías staðfestir að hitt lagið hafi verið ábreiða af gamla Who slagaranum Join Together)
Hitt lagið náði greinilega aldrei sama flugi og “Og þeir skora”. Við reyndum töluvert að hafa uppá þessari kasettu en höfðum ekki árangur sem erfiði. Ef einhver lesandi á eintak í geymslunni má sá hinn sami koma því á skrifstofu UMFG í Gjánni.
En hvað hvað heitir lagið góða? Maður heyrir það jöfnum höndum kallað “Og þeir skora” en líka einfaldlega “Grindavíkurlagið.
Daddi: Góð spurning! Ég held að bæði nöfnin séu hreinlega jafngild, en allir þekkja “Og þeir skora” og vita uppá hár hvaða lag það er.
Matthías: Við notuðum þessi nöfn til skiptis. “Og þeir skora” var allavega það nafn sem ég hef í kollinum, en það var samt oftast kallað Grindavíkurlagið.
Guðni virðist hafa heldur betur hitt beint í mark þegar hann fékk Matthías vin sinn til að semja lagið okkar. Ég spurði Matthías hvort hann þetta hefði verið helber tilviljun eða hvort hann hefði verið lengi í bransanum:
Þetta var lengi hobbí hjá mér, ég samdi lög fyrir hljómsveitina Ópus veturinn 1974 sem við gáfum út, ég spilaði þá með þeim. Svo var ég á níunda áratugnum í þjóðlagasveitinni Hrím og við gáfum út plötu og kassettu með slatta af frumsömdu efni.
Svo átti ég tvö lög á FH-plötu 1987 auk lags og tveggja texta á Breiðablikskassettu svo ég hef samið baráttulög fyrir þrjú félög! Ég var reyndar mjög tengdur þjálfara Blikanna þá og vinir mínir í FH-bandinu fengu mig með í það, en Guðni Ölvers fékk mig í UMFG-dæmið og það er ég mjög þakklátur fyrir, gaman að hafa tekið þátt í þeirri velgengni!
Ég spurði Dadda hvort hann vissi hver leyndardómurinn á bakvið gott stuðningsmannalag væri. Það hefði þó kannski verið nær að spyrja Matthías að því!
Það er erfitt að segja. Það leggur enginn upp með að semja lélegt lag. Mörg af þessum lögum sem hafa verið samin fyrir íþróttalið á Íslandi eru voða fín og flott, mikið lagt í “production” og jafnvel einhverjar kanónur að syngja en svo falla þau alveg flöt og gleymast strax. Ég gerði mér engan veginn grein fyrir að þetta lag myndi verða svona vinsælt og lifa svona lengi. Þetta þarf ekkert að vera flókið, nokkrir hljómar í réttri röð og einfaldur og grípandi texti og þú ert kominn með sigurformúlu.
Er ekki kominn tími á endurútgáfu? Jafnvel með uppfærðum texta sem bæði karla og kvennaliðin gætu samsamað sig við?
Matthías: Lagið var auðvitað samið á sínum tíma fyrir meistaraflokk karla, og þess vegna er textinn “Þeir skora”, en því má vitaskuld breyta að vild í nýrri útgáfu. Reyndar samdi ég eitt erindi í viðbót eftir að titillinn var í höfn 1996 og gaf Gumma Braga á lokahófinu það ár. Ég man textann því miður ekki lengur, spurning hvort að Gummi eigi það einhversstaðar í pokahorninu?
Daddi: Já það væri örugglega ekki erfitt, breyta textanum í “og þau skora”, eða jafnvel “og við skorum” svo allir Grindvíkingar geti sungið sig inn í hlutverk stórskotaliðsins á vellinum. Svo skilst mér líka að það sé ekki til nein alvöru master upptaka af þessu úr stúdíóinu, bara gamla góða kasettan. Það væri auðvitað borðleggjandi að kalla gömlu félagana úr Geimförunum í stúdíó og taka upp smá “2022 Re-master” útgáfu af þessari tímalausu klassík.