Tap gegn Stjörnunni

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Garðbæingar virðast hafa gott tak á okkar mönnum því í fyrsta leik eftir bikarleikinn sigraði Stjarnan Grindavík örugglega 104-82

Það var þriðji leikhluti sem skar úr milli liðanna.  Stjarnan vann þann leikhluta 34-18.

Hér eftir er umfjöllun karfan.is af leiknum:

“Grindvíkingar mættu í Ásgarð í kvöld og öttu kappi við nýkrýnda bikarmeistara Stjörnunnar, en eins og frægt er orðið unnu Stjörnumenn stórsigur á Grindvíkingum í úrslitaleik bikarsins fyrir ekki nema viku síðan. Því voru margir spenntir að sjá hvort Grindvíkingar næðu að hefna fyrir niðurlæginguna sem þeir hlutu í Laugardalshöll.

Mönnum var heitt í hamsi í byrjun leiks og fengu þeir Jóhann Árni Ólafsson og Fannar Freyr Helgason sína tæknivilluna hvor eftir viðskipti á miðjum vellinum. Um miðjan leikhlutann fóru liðin í mikinn ham fyrir utan þriggja stiga línuna og skoruðu samtals 10 slíkar körfur í fyrsta fjórðung. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 30-25 heimamönnum í vil.

Í öðrum leikhluta voru heimamenn ívið sterkari, án þess þó að ná að slíta gestina alveg frá sér. Liðin kældu byssurnar örlítið í öðrum leikhluta og talsvert minna var skorað, þrátt fyrir nokkur góð tilþrif. Tilþrif fyrri hálfleiks komu þó í lokasókn Grindvíkinga þegar Brian Mills varði skot Sammy Zeglinski með miklum tilþrifum. Staðan í hálfleik var 49-43, heimamönnum í vil og allt útlit fyrir þokkalegan seinni hálfleik.

Von hlutlausra áhorfenda um spennandi leik hurfu hins vegar fljótlega út í veður og vind í þriðja leikhluta. Heimamenn settu í lás í vörninni og opnuðu vörn Grindvíkinga upp á gátt næsta auðveldlega, sókn eftir sókn. Áður en Grindvíkingar vissu af voru þeir komnir 20 stigum undir og virtust engin ráð eiga í sóknarleik sínum. Stjörnumenn léku hins vegar á als oddi og voru þeir Brian Mills og Jarrid Frye enn og aftur gríðarlega öflugir í liði Garðbæinga. Fyrir lokafjórðunginn hafði Stjarnan 22 stiga forskot, 83-61, og vart að sjá að hér væri um topplið Grindavíkur að ræða.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að klóra í bakkann í fjórða leikhluta, og bættu varnarleik sinn talsvert. Stjörnumenn urðu nokkuð órólegir og tóku að gera heilmikið af klaufalegum mistökum, sem Grindvíkingum tókst hins vegar engan veginn að nýta sér. Gestirnir náðu muninum mest niður í 15 stig en þá tók Teitur Örlygsson leikhlé. Við það róuðust Garðbæingar aðeins og lönduðu virkilega öruggum 22 stiga sigri, 104-82.

Ljóst er að eftir dapurt gengi í Dominos-deildinni í aðdraganda bikarúrslitanna eru Stjörnumenn vaknaðir að nýju. Liðið lék hreint frábærlega í kvöld, bæði í vörn og sókn og nái liðið þessu skriði verður það illviðráðanlegt í úrslitakeppninni í vor. Grindvíkingar voru hins vegar langt frá sínu besta.

Stigahæstur Stjörnunnar var Brian Mills með 25 stig, og Jarrid Frye var nálægt þrennunni með 24 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Aaron Broussard hins vegar með 21 stig.”

 Hægt er að sjá myndir frá leiknum á vef karfan.is