Sumarfrí….

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Annað árið í röð þurfum við Grindvíkingar að bíta í hið súra epli….

Að detta út úr 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar er ekki það sem lagt er upp með í upphafi leiktíðar því metnaður okkar sem að starfinu stöndum, liggur ávallt til hæstu hæða.  Því eru það mikil vonbrigði að detta annað árið í röð út í 8-liða úrslitunum.

Hvað er hægt að segja um þennan leik í gær?  Ég “rétt” missti af honum en fylgdist spenntur með á live stat og það sem kemur manni auðvitað mest á óvart er frammistaða Nick Bradford í gær.  Þessi töffari sem hingað til hefur verið þvílíkur winner, er nánast no show í gær og það er óskiljanlegt í ljósi mikilvægi leiksins.  Því miður er ég smeykur um að hugur Nicks hafi verið kominn út til nýfædds sonar síns, það er bara ekki eðlilegt að hann fái ekki eina villu og taki ekki eitt frákst í þessum leik í gær!!  En auðvitað er mikil einföldun að ætla skella skuldinni á hann og við fengum okkar tækifæri á að vinna leikinn en þetta einfaldlega datt með Stjörnumönnunum í gær og óska ég Teiti og lærisveinum hans hér með til hamingju með sigurinn og óska þeim góðs gengis í baráttunni sem framundan er.  Þeir virðast vera toppa í leik sínum núna, ólíkt okkur.   Ef við kíkjum á þetta tímabil og í hverju við lentum, þá er kannski ekkert skrýtið að sumarfrí okkar hefjist núna…..

Liðið var orðið full mannað rétt fyrir byrjun Íslandsmóts og síðasta stykkið í púsluspilið var hinn frábæri Ryan Pettinella.  Þvílíkur hvalreki á okkar fjörur!!!  Nú strax er verið að vinna í að halda þessum gæðapilti.  Liðið fór mjög vel af stað og var að spila virkilega vel og þá sérstaklega varnarlega.  Grindvískt lið hafði jafnvel aldrei áður leikið eins góða vörn.  Sóknarleikurinn ekkert meira en la la en hann átti alltaf að geta batnað eftir því sem myndi líða á veturinn.  Og hefst þá sorgarsagan…

Kani liðsins og leikstjórnandi, Andre Smith, lendir í því að bæði móðir hans og systir veikjast…. Með öðrum orðum þá leyfi ég mér að fullyrða að hann fékk heimþrá…..   Annars má það heita ótrúlegt hversu heilsuveilt skyldfólk sumra þessara Kana er…..  Andre Smith var flottur leikmaður og var með 21 stig og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik áður en hann fór.  Fyrsti tapleikurinn á tímabilinu en þá voru 5 sigrar komnir í sarpinn, kom strax og hann hafði yfirgefið skútuna, á móti sjálfum Íslandsmeisturunum og það á útivelli.

Helgi fer á stúfana og ræður að lokum Jeremy Kelly en í ljós kom eftir að hann kom til landsins, að hann hafði ekki spilað að viti í eitt ár, sökum meiðsla m.a.  Það var einfaldlega logið að Helga en hann hefur sagt að hann hefði aldrei ráðið hann vitandi að hann hefði ekki verið búinn að spila í ca ár.  En hingað var Kelly kominn og voru margir sammála um að þar færi virkilega góður leikmaður, þ.e. þegar hann yrði kominn í sitt besta form.  Ég fullyrði að hann hefði orðið einn af betri Bandaríkjamönnum deildarinnar ef hann hefði getað spilað áfram!  Í síðasta leik fyrir jólafrí á móti Keflavík þá hljóta margir Grindvíkingar að hafa hugsað sér gott til glóðarinnar eftir ca 3 leikhluta því við vorum að kjöldraga sterkt lið Keflavíkur!  En einbeitingarleysi kom Keflvíkingum aftur inn í leikinn en við unnum í lokin.  Undir lok leiksins lenti Jeremy Kelly í mjög óíþróttamannslegri framkomu keflvísks leikmanns sem viljandi setti fótinn á sér undir Kelly á meðan hann skaut.  Kelly lenti á fæti andstæðingins og sneri ökklann á sér mjög illa.  Að þessu atviki urðu mörg vitni og fer viðkomandi leikmaður sem olli þessu slysi, neðarlega á minn virðingarlista en fyrir þetta atvik var hann kominn ansi hátt á hann!!  Kelly fór heim í jólafrí og Helgi var í sambandi við hann til að sjá hvernig heilsan væri.  Um áramót var Kelly vart farinn að stíga í fótinn og í ljósi formleysis hans, þá var sú að mínu mati, rétta ákvörðun tekin um að fá nýjan leikmann.  En mikið hefði verið gaman að sjá Kelly hér áfram og í sínu besta formi!

Aftur fór Helgi að leita og rakst á hvítan leikstjórnanda, Brock Gillespie.  Sá leit verulega vel út (hver gerir það svo sem ekki þegar hann er á leiðinni…..) og samþykkti að koma til okkar.  Hvað gerist?  Rétt áður en hann steig upp í flugvélina fékk hann betra tilboð og bað okkur vel að lifa….

Aftur hefst leit en á þessum tímapunkti, rétt eftir áramót er mótið hafið að nýju og unnum við fyrstu leikina Kanalausir þótt spilamennskan væri kannski ekkert frábær.  Fljótlega kemur nafn Joe Dukes upp úr hattinum og er ákveðið að semja við hann.  Hertoginn þurfti að klára pappírsmál vegna atvinnuleyfis en það virtist snúast mjög svo fyrir honum…  Eftir 2 vikur var gefist upp á honum og kom þá í ljós hjá umba Hertogans, að hann væri kannski ekkert sá allra skarpasti….

Kanaleitin heldur áfram og þar koma að mínu mati fyrstu mistök vetrarins.  Kevin Sims er ráðinn en var að mínu mati langt frá því að vera nægilega góður leikmaður.  Hann hafði lítið til að bakka sig upp og hafði einungis spilað hálfan vetur í Marakó en sumir spurðu hvort það væri deild þar…..  Hann leit eins og þeir allir gera, vel út á youtube en þegar til kastanna kom þá var hann bara engan veginn nógu góður.

Rétt fyrir undanúrslit í bikarnum helltist fyrirliðis liðsins og ein helsta skytta, Gulli Eyjólfs úr lestinni.  Það gera ekki allir sér grein fyrir hversu mikilvægur hlekkur Gulli er, bæði frábær leikmaður en ekki síður frábær félagi.  Það er óskandi að Gulli snúi til baka!

Þar sem heilsa Paxels og Lalla var umhugsunarverð, á þessum tímapunkti, var sú ákvörðun tekin að styrkja liðið með evrópskum leikmanni og var Mladen Soskic fenginn.   Hann var í ansi miklu ströggli fram yfir bikarúrslit en fór loks að sína eitthvað af því sem í honum býr, eftir að Kevin Sims fór.  Góður leikmaður að mínu mati sem vert er að hafa í huga í framtíðinni.

Eftir bikarúrslit finnst mönnum fullreynt með Kevin Sims og hann látinn fara.   Haldinn var fundur með Helga og lagði hann mesta áherslu á að fá mann sem við þekktum og mann sem við vissum að væri mikill karakter, Nick Bradford.  Þar sem Nick er ekki leikstjórnandi ákvað Helgi Jónas að hella sér að fullu út í spilamennsku og voru menn sömuleiðis bjartsýnir á að stutt yrði í Lalla sem hafði meiðst í bikarúrslitunum.

Nick kom til landsins en var greinilega ekki í sínu besta formi enda hafði hann ekki spilað síðan í desember.  Nick spilaði samt vel að mínu mati fyrstu 3 leikina sína sem allir unnust, m.a. KR á útivelli.  Auk þess virtust aðrir leikmenn bæta sinn leik, t.d. Óli Ól.   Í 4.leik Nick og lokaleik deildarkeppninnar, tábrotnaði Helgi Jónas og ljóst að hann myndi ekki leika meira með….

Punkturinn yfir i-ið er kannski að barnsmóðir Nick skyldi fæða son þeirra nokkrum vikum fyrir tímann því eins og ég sagði áðan, þá grunar mig að hugur Nick hafi þá þegar verið kominn til hins nýfædda…  Kannski er það langsótt en alla vega er deginum ljósara að Nick var ekki skugginn af sjálfum sér og spilaði mjög illa í gær, í sínum síðasta leik sem atvinnumaður í körfubolta.  Ekki beint endirinn sem hann sjálfsagt óskaði sér….

En þá er sagan að mestu rakin og þegar litið er til þessara hluta þá er kannski ekkert skrýtið að sumarfrí sé skollið á.

En vinna er strax hafin við enduruppbyggingu liðsins og verður eins og alltaf, stefnt á hæstu hæðir!

Áfram Grindavík!