Stúka og tækjabúnaður í nýtt íþróttahús

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur mun leika heimaleiki sína í nýja íþróttahúsinu frá og með næsta hausti. Í fjárhagsáætlun bæjarstjórnar Grindavíkur fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir fjárfestingu á nýrri stúku í okkar nýja og glæsilega íþróttahús ásamt fjárfestingu í nýjum tækjabúnaði, samanber nýrri stigatöflu og skotklukkum.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir körfuknattleik í Grindavík en núverandi keppnishús er orðið of lítið. Það verður þó mikill söknuður af því að spila heimaleikina í gömlu góðu Röstinni þar sem félagið hefur unnið marga glæsta sigra í gegnum tíðina. Það hús mun áfram nýtast afar vel sem æfingahús fyrir okkar yngri flokka ásamt því að hýsa íþróttakennslu grunnskóla og fimleikadeild UMFG.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og ber að hrósa bæjarstjórn fyrir að ráðast í þetta verkefni á næsta ári,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG. „Þetta mun verða mikil lyftistöng fyrir félagið og í raun gjörbylta aðstöðu félagsins. Sérstaklega horfum við til þess að geta betur tekið á móti stuðningsmönnum á heimaleiki félagsins. Þetta verður ein glæsilegasta aðstaða á landsins til körfuknattleiks.“

Stefnt er að því að stúkan komi til landsins í sumar og að vinna við uppsetningu hennar fari fram þegar okkar yngri flokkar eru í sumarfríi. Þannig verður reynt að halda raski á æfingum vegna þessa í lágmarki. Vonir standa til að salurinn verði þannig tilbúinn til æfinga og keppni þegar æfingar hefjast á nýjan leik um miðjan ágúst á næsta ári.

Bæjarráð hefur jafnframt samþykkt að leita lausna tengt hljóðvistarveggjum sem eru í norður og suðurenda hússins. Hönnun á þeim veggjum hefur valdið sumum iðkendum sjónrænum óþægindum og er ljóst að gera þarf breytingar á veggjunum áður en keppni hefst í húsinu á stórum velli. Sú vinna er þegar farin af stað og verður gerð í góðu samstarfi við UMFG.

„Eftir gott gengi í haust er mjög ánægjulegt að fara áfram inn veturinn með þessi góðu tíðindi. Þetta gefur okkur byr undir báða vængi að halda áfram okkar góða starfi. Við óskum körfuboltasamfélaginu í Grindavík innilega til hamingju með þessi ánægjulegu tímamót,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.