Grindavík er komið í úrslitaviðureign Íslandsmótsins þriðja árið í röð eftir frábæra frammistöðu í gær þar sem þeir unnu Njarðvík í oddaleik 120-95.
Eftir fyrsta leikhluta var munurinn orðinn 19 stig og var það aldrei spurning hvort liðið færi áfram eftir það.
Bæði sóknarleikur og varnarleikurinn var af bestu sort og baráttan til fyrirmyndar. Það er svo mikill munur á þessu liði okkar á milli leikja að það er með ólíkindum, fjórði leikurinn var lélegur en svo kom þessi.
Allir leikmenn áttu mjög góðan leik og sumir jafnvel frábæran leik. Lews Clinch var með 31 stig og 10 stoðsendingar, Ómar og Sigurður áttu svæðið undir körfunni og héldu Tracy Smith alveg niðri. Jón Axel átti magnaðan fjórða leikhluta þar sem hann tók m.a. þrjú fráköst í röð og þar af tvö sóknarfráköst í sömu sókninni. Jóhann og Ólafur einnig mjög góðir eins og allir leikmenn liðsins.
Með þessu hugarfari getur Grindavíkurliðið farið langt í einvíginu gegn KR og verður gaman að fylgjast með því. Fyrsti leikurinn er í DHL höllinni á mánudag klukkan 19:15 þar sem Grindvíkingar ætla að fjölmenna og halda áfram góðri stemmingu eins og pallarnir sýndu í gær.
Myndir frá leiknum er á karfan.is þar sem myndin hér að ofan er fengin frá.