Stóri dagurinn nálgast

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Mikil spenna er komin í körfuboltaáhugafólk en eins og allir vita verður leikið til úrslita í Powerade-bikarnum á laugardag.

 

Eflaust mæta KR-inga kokhraustir til leiks en fyrirliði þeirra, Fannar Ólafsson lofaði 2 stórum titlum á þessu tímabili og þar sem Powerade-bikarinn flokkast undir stóran titil þá er ljóst að Fannar er fyrirfram búinn að vinna þennan leik á móti okkur.  KR-ingar mættu á leik okkar manna á móti Stjörnunni á mánudag og heyrði ég í einum þeirra sem sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af leiknum m.v. það sem hann sá til okkar þá.  Enda geta KR-ingar mætt verulega kokhraustir til leiks ef okkar menn ætla að spila áfram eins og þeir hafa gert að undanförnu og þá sérstaklega á móti Stjörnunni.  En ég þekki mína menn og trúi ekki öðru en þeir mæti dýrvitlausir til leiks og ef þeir ná vörninni sinni frábæru í gang þá gætu góðir hlutir gerst fyrir okkur.  Við erum ennþá það lið sem fæst stig hefur fengið á sig í vetur og við verðum bara að ná þessari vörn upp á laugardaginn.  Eins merkilegt og það er þá skal sóknin oft fylgja í kjölfarið og talandi um sóknina. 

Ég vil sjá Kevin vera mun grimmari en hann hefur verið undanfarið og myndi ég vilja sjá dagskipun á hann þess efnis að koma sér fram yfir miðju á mun skemmri tíma en hann hefur hingað til gert.  Mér hefur fundist eins og okkar menn hálf sofni við drollið í honum en í síðasta leik var sóknarleikurinn okkar verulega tilviljunarkenndur og bara lélegur einfaldlega.  Hann býr yfir mjög miklum hraða og hann verður einfaldlega að nýta hann en með meiri ákveðni í Kevin fá okkar menn aukakraft held ég.  Kevin mun pottþétt fá Marcus Walker á sig og sá er mjög góður í að dekka boltamanninn þegar hann kemur upp. Kevin er vanur að spila fyrir mun fleiri hausa en hann hefur hingað spilað fyrir hér landi og eflaust þrífst hann best við svona aðstæður eins og á laugardaginn.  Ég er því sannfærður um að hann mun stíga duglega upp og spila vel.

Nýji Serbinn gæti orðið okkar „wild card“ í þessum leik en ef við spáum í það þá er alltaf eitthvað nýtt andlit sem poppar upp í úrslitaleik og gerir gæfumuninn.  Þegar við unnum bikarinn síðast þá steig Helgi mun stærra upp en hann hafði gert fram að því það tímabilið og Pétur Guðmunds gerði það sömuleiðis.  Þeir voru okkar wild cards í þeim leik.  Mladen er pottþétt mjög góður leikmaður þótt hann hafi ekki náð að sýna það síðan hann kom.  Auðvitað var ekki hægt að dæma hann út frá fyrsta leik og í leiknum á móti Stjörnunni var hann bara á sama dapra level-inu og aðrir leikmenn okkar.  Þessi strákur hefur spilað í mun sterkari deildum en hér á landi sem segir að hann hafi ýmislegt til brunns að bera.  Ég talaði við hann eftir Stjörnuleikinn og var ég mjög ánæður með hugarfar hans eftir þann leik, það einfaldlega sauð á honum!  Þetta vill maður sjá, að menn sýni hjarta í þessu!

KR-ingar eru örugglega að reyna sjóða saman plan til að stoppa Ryan Pettinella en við þurfum virkilega á því að halda að hann komi með svipaðan leik eins og á móti Snæfelli.  Hann þarf að borða eins hafragraut og hann borðaði þann morguninn!  Þvílíkur fítonskraftur í honum allan leikinn en það viljum við fá frá honum á laugardaginn.  Í leik liðanna í deildinni í lok nóvember þá áttu Fannar og félagar ekki roð í Ryan sem hreinlega pakkaði þeim saman og við verðum að fá þennan geðþekka ítalskættaða Bandaríkjamann í ham á laugardaginn!  Pabbi hans kemur á laugardagsmorgun og mun það örugglega kveikja ennþá betur upp í Ryan.

Ég spái því að Paxel stígi ærlega upp í þessum leik og eigi einn sinn besta leik í vetur.  Þegar sá gállinn er á honum þá er hann baneitraður og mun eflaust losna talsvert um hann þegar KR-ingarnir glíma við Ryan og það þarf Paxel að nýta sér og setja niður opnu skotin sem hann fær.  Á meðan Gulla nýtur ekki við er Paxel okkar helsta vopn fyrir utan og þurfum við góðan leik frá honum, eins og í raun öllum!  Hver veit nema Gulli klæðist þeim gula á nýjan leik á laugardaginn og  yrðu það frábærar fréttir fyrir okkur!

Bræðurnir eru okkur ótrúlega mikilvægir, ekki síst vegna baráttu þeirra.  Lalli er alltaf eins og mannýgt naut og það viljum við, baráttan hreinlega lekur af honum!  En hann þarf að halda einbeitingu allan leikinn og ekki gleyma sér eina einustu mínútu!  Í sókninni þarf hann að hafa skynsemina að leiðarljósi.  Ég gæti trúað að Óla kitli nett í hásinirnar fyrir þennan leik og iði í skinninu að fá að troða yfir mann og annan í höllinni, eða blokka glæsilega skot eitthvert upp í stúku!  Óli kemur okkur oft í stuð með sínum frábæru tilþrifum en ég vil sjá hann slaka aðeins á stundum og finnst mér sum 3-stiga skota hans helst til of ótímabær en Óli er ekki að skjóta nema tæp 18% fyrir utan 3-stiga línuna í vetur.  Troddu þessu bara frekar Óli! 

Ómar hefur dalað eftir áramót eftir góða byrjun á tímabilinu en það er bara tímaspursmál hvenær hann hrekkur aftur í gang því hann berst alltaf eins og ljón og leggur sig alltaf 100% fram og það mun að lokum skila honum góðum leik.  Við þurfum að fá 10+ fráköst frá Ómari í þessum leik.

Hver einasti kjaftur sem kemur af bekknum þarf að leggja sig allan fram og varamenn okkar þurfa að mínu áliti að byrja á því að vinna sig inn í leikinn varnarlega séð.  Helgi Björn átti t.d. frábæra innkomu á móti Haukum í undanúrslitunum en þá hélt hann Gerald Robinson niðri á löngum köflum.  Við þurfum þetta frá Helga og í sókninni þarf hann einfaldlega að týna upp þá mola sem falla af borðinu.

Það var eflaust ekki hátt risið á mörgum Grindvíkingum eftir 4. tapið í röð í deildinni á mánudaginn og spilamennskan fyrir neðan allar hellur.  Þetta er ekki beint veganestið sem við viljum taka með okkur í höllina en einhvers staðar segir að þegar botninum er náð að þá sé hægt að ná betri spyrnu.  Ég er sannfærður um að okkar spyrna verður góð í þessum leik!  Ef bæði lið spila sinn eðlilega leik þá finnst mér að KR-ingar þurfi að hafa meiri áhyggjur af okkur en við af þeim og ástæðan er Ryan Pettinella.  Þeir áttu engin svör við honum í leiknum í deildinni og hafa einfaldlega ekki menn til að stoppa hann.  Hrafn þjálfari er því örugglega að reyna hrista eitthvað fram úr erminni og verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst með það.  Pavel er besti leikmaður KR og á góðum degi hótar hann þrefaldri tvennu og það ber vott um frábæran körfuknattleiksmann.  Í leik liðanna gekk okkur samt ágætlega að halda aftur af honum og með tilkomu Serbans sem er fínn varnarmaður, þá á okkur að geta gengið jafn vel.  Enn og aftur þurfum við að taka 3-stiga skotin frá andstæðingi okkar.  Ég skil ekki út af hverju við verjumst því ekki af meiri ákefð því ef sóknarmaðurinn kemst fram hjá varnarmanni sínum þá er eitt stykki Ryan Pettinella sem bíður hans….  Brynjar er baneitruð skytta sem má ekki fá tækifæri á að hittna.  Marcus Walker hefur vaxið ásmegin í allan vetur og er farinn að spila fantavel fyrir KR-ingana.  Hann er leiftursnöggur og er mjög góður varnarmaður, sérstaklega þegar leikstjórnandi kemur upp með boltann.  Hann skorar mikið af sínum stigum úr hraðupphlaupum og því verðum við að vera tilbúnir að verjast, vera fljótir aftur!

Ég er sannfærður um að ef við mætum með spennustigið rétt stillt í þennan leik og náum upp þeirri baráttu og vörn sem við erum þekktir fyrir, að þá getum við tekið KR-ingana.  Eins og Paxel sagði eftir bikartitilinn á móti Keflavík þá er vörn vilji og vilji er stemning.  Þar kemur að þætti okkar stuðningsmannanna.  Við verðum að ná okkur eins vel á strik eins og í rimmunni við KR fyrir 2 árum.  Þá sýndum við virkilega hvað í okkur er spunnið.  Við þurfum að stilla vel saman strengi okkar og byrjar sú fínstilling á Pup-quiz á morgun í Framsóknarheimilinu kl. 21 og svo verður fínstillingin fullkomnuð í Þróttaraheimilinu á laugardag.  Frumsýning er svo kl. 16:00 og þá verðum við öll KLÁR Í SLAGINN!!

ÁFRAM GRINDAVÍK!