Stjörnunni lensað í Röstina

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Það má segja að um Stjörnuhrap í Röstinni hafi verið að ræða í fyrsta leik Grindavíkur og Stjörnunnar í lokarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik en um fátt annað hefur verið talað um eftir áramót í íslenskum körfuknattleik en “dýrasta lið sögunnar”, Stjörnuna.  

En Stjarnan lenti á vegg í kvöld og má segja að virkið hafi verið varið og sá sem stóð vaktina einna best var St-Aaron Broussard sem átti algeran stjörnuleik en einnig komst árans kjóinn, Jóhanni Árni Ólafsson, einkar vel frá sínu.

Fyrsti leikurinn í FINALS var ÁGÆTIS BYRJUN!

Eftir 0-7 byrjun Stjörnunnar komumst okkar menn í gang svo um munaði og settum við á svið 19-2 sýningu!  Við leiddum eftir fyrsta fjórðung, 26-18 en Stjörnumenn mættu ákveðnir til leiks í 2 leikhluta og unnu hann sannfærandi , 20-30 og leiddu þ.a.l. í hálfleik, 46-48.

Eflaust var beigur í mörgum Grindvíkingnum þar sem í ljós kom að tröllið okkar, Ryan Pettinella var algerlega óleikfær sökum ælupestar en hann hóf uppköst stuttu áður en UPPKASTIÐ átti sér stað….  Auk þess var Sammy kominn í villuvandræði með 3 villur í hálfleik en eftir snarpar upphafsmínútur í seinni hálfleik þá voru Sammy og vestfirska tröllið, Siggi Þorsteins, báðir komnir með 4 villur!  “Ekki nema” 15 mínútur eftir af leiknum og 3 af okkar lykilmönnum víðs fjarri…

Upphófst þá einhver flottasti leikkafli sem grindvískt körfuknattleikslið hefur sett á svið!  Daníel Guðmundsson sem hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í byrjun síns ferils með Grindavík, kom gríðarlega sterkur inn þótt blessuð tölfræðin bakki þau orð mín ekki beint upp.  Hann gerði ekki ein mistök þótt fyrsta skotið hans fari ekki beint í sögubækurnar en hann spilaði frábæra vörn og tók boltann upp af miklu öryggi.  Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að næsta skot Daníels mun fara beint niður og hans bíði flottur frami með okkur.

Þegar Siggi Þorsteins fyllti upp í 4.villu kvótann eins og Sammy, þá kom David Ingi Bustion inn á í staðinn en hann er ca. 36 cm styttri en Siggi……  Hans hlutverk var að glíma við Brian Mills hjá Stjörnunni.  Ég heyrði nokkra sveitunga mína kasta hvíta handklæðinu á þessum tímapunkti…..  Verkefnið virtist vera of stórt að glíma við.  En hvað gerðist?  Við héldum velli og vel það til loka 3. leikhluta og lensuðum einfaldlega Stjörnunni úr Röstinni í byrjun 4. leikhluta!  Stjarnan skoraði ekki nema 12 stig í lokafjórðungnum sem segir allt sem segja þarf um frammistöðu okkar manna í lokin.

Niðurstaðan; mikilvægur/bráðnauðsynlegur/flottur/frábær sigur okkar manna í þessum fyrsta leik “The finals”.  Það þýðir ekkert að ofmetnast við þennan sigur og staðan er bara 1-0 fyrir okkur.  Við gerðum einfaldlega það sem við “áttum” að gera, þ.e. að VERJA VIRKIÐ!  Pressan er þar með komin yfir á Stjörnuna og nú er það þeirra að verja Ásgarð.

Eitt er að ofmetnast en annað er að öðlast sjálfstraust.  Kannski voru sumir Grindvíkingar ekkert allt of borubrattir eftir síðustu viðureignir við Stjörnuna en ef sjálfstraust sveitunga minna er ekki búið að aukast eftir þennan sigur, hvenær mun það þá aukast??  Við unnum frábært Stjörnulið með nokkuð vængbrotið lið.  Ég segi vængbrotið lið því okkur munar mjög mikið um tröllið okkar, hvern myndi ekki muna um slíkt tröll??  Auk þess lenti einn okkar besti leikmaður, Sammy Zeglinski fljótlega í villuvandræðum.  Hitt tröllið okkar, Siggi Þorsteins, lenti fljótlega í sömu súru súpu.  Þá stigu allir upp sem um munaði og lönduðu einum flottasta sigri okkar í langan tíma!

Ég ætla að leyfa mér að loka þessum pistli með því að blása aðeins í trompet okkar stuðningsmannanna, við vorum FRÁBÆR í kvöld og áttum örugglega okkar þátt í þessum flotta sigri.  Leikmenn áttu ekki orð yfir umgjörðinni, stemningunni og hvatningunni allan leikinn!!!  Flestöll vorum við gul og ég spyr bara, hvers vegna mætum við ekki bara ÖLL gul og glöð á næsta leik??  Ég horfði á leikinn í sjónvarpinu og það einfaldlega skar í augun að sjá sætar blondínur í skærbleiku og tjokkó-sæta skekkjaða karlmenn í öllu svörtu!  Hér með skorað á ALLA að að mæta í GULU á næsta leik en hann verður í Ásgarði, Garðarbæ, á föstudagskvöldið kl. 19:15.

Áfram Grindavík!