Staðan og spádómar….

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Eins og ég nefndi í síðasta pistli mínum

þá eru álíka miklar líkur á að spá rétt fyrir um lokastöðu  Iceland Express deildarinnar eins og að fá 5 rétta í lottóinu…  Það er deginum ljósara að ansi margt á eftir að gerast á lokasprettinum en öllum finnst gaman að spá og spekúlera, alla vega mér…

Umferðin sem byrjar í kvöld er eins og báðar hinar lokaumferðirnar, áhugaverð, sama hvort litið er til baráttu á toppi, um að komast í úrslitakeppni eða fyrir lífi í deildinni.

Þetta eru leikirnir:  Keflavík – KFÍ, Fjölnir – Tindastóll, KR – Grindavík, Hamar – ÍR, Stjarnan – Snæfell og Haukar – Njarðvík.  Staðan í deildinni er þessi:

                                          Sigrar/töp

1.       Snæfell               16/3

2.       KR                       15/4

3.       Grindavík            13/6

4.       Keflavík               13/6      

5.       Stjarnan              10/9

6.       ÍR                         8/11

7.       Njarðvík               8/11

8.       Haukar                 8/11

9.       Tindastóll            7/12

10.   Fjölnir                  6/13

11.   Hamar                  6/13

12.   KFÍ                        4/15

Ég ætla að fjalla um okkar leik og spá svo fyrir um úrslit hinna leikjanna og skoða hvernig taflan myndi líta út m.v. þau úrslit.

KR-ingar urðu fyrir tímabundinni blóðtöku þegar tilkynnt var að Fannar Ólafsson hefði brotið fingur á æfingu og er úr leik í 4-6 vikur.  Þekkjandi eitthvað til Fannars þá kæmi manni ekki á óvart þótt þessar 4-6 vikur breyttust í 2 vikur eða réttara sagt, 16 eða 17 daga.  Glöggir lesendur gera sér grein fyrir að þá byrjar úrslitakeppnin….   En væntanlega verður Fannar þá ekki með í lokaleikjum úrslitakeppninnar og er það skarð fyrir skyldi fyrir KR-inga þar sem Fannar er fyrirliði þeirra og prímusmótor.  Þetta verðum við bara að gjöra svo vel og nýta okkur!  Við erum búnir að stækka eftir síðustu breytingu (hvernig gátum við annað eftir að Kevin Sims var látinn fara??…. J) og erum orðnir ansi óárennilegir inni í teig.  Þar státum við af 3 mönnum sem eru yfir 2 metra og þar ríkir hæstur, Ryan Pettinella.  Ég hafði á orði fyrir bikarúrslitaleikinn að KR þyrfti að hafa meiri áhyggjur af okkur í þeim leik en við af þeim þar sem þeir hefðu ekki svar við Ryan en eftir á að hyggja voru þau orð óskhyggja þar sem leikur okkar manna var í algerum molum.  Það varð mikil breyting til batnaðar við leikmannauppstokkunina um daginn og koma Nick Bradford og ekki síður Helgi Jónas, með mjög ferskan blæ inn í lið okkar en vissulega munu þeir þurfa smá tíma til að komast í sitt besta leikform.  Spurningin er bara hversu vel okkur tekst að púsla okkur saman fram að úrslitakeppni.  M.v. það sem við sáum til Nicks og Helga á móti Hamri er ekki mikil ástæða til að örvænta.  Auk þess var allt annað að sjá til Mladen í síðasta leik og er ég sannfærður um að mun meira búi í þeim strák.  Eitthvað segir mér að Paxel sé að fara toppa.  Það var bara allt annar blær yfir leik okkar manna og ef sami ferskleiki og gleði heldur áfram, er von á verulega góðum hlutum frá okkur! 

Ég ætla því að leyfa mér að gerast svo djarfur að spá fyrsta tapi KR-inga á þessu ári!!

Keflavík – KFÍ.  Væntanlega verða Tommi og Jenni hér í aðalhlutverkum og ólíkt teiknimyndaseríunni mun Tommi væntanlega japla vel og rækilega á Jenna….

Fjölnir – Tindastóll.  Fjölnismenn eru væntanlega meira að spá í fallbaráttuna en sæti í úrslitakeppninni á meðan Tindastóll eygir von um sæti í úrslitunum.   Eftir að Stólarnir virtust vera komnir á gott skrið og slógu m.a. Keflavík út úr bikarnum á útivelli í 8-liða úrslitum, þá hafa þeir heldur misst flugið að undanförnu og hafa tapað 4 leikjum í röð í deildinni.  Þeir eru með 3 öfluga útlendinga á meðan Fjölnismenn skarta bara einum og sá er heldur betur nýr af nálinni, kom til liðs við Fjölni fyrir síðasta leik sem var sigurleikur á móti KFÍ á útivelli.  Kappinn heitir Brandon Brown og var með flotta tvennu í þessum eina leik sínum til þessa, 27 stig og 14 fráköst.  Spádómur minn hljóðar upp á að Tindastóll vinni og setji Fjölni þ.a.l. í alvarlega fallhættu.

Hamar – ÍR.  ÍR-ingar eru eitt af af hættulegri liðum deildarinnar um þessar mundir að mínu mati!  Þeir skarta einum besta kananum í deildinni, Kelly Biedler en hann er mikill liðsmaður og skilar flottum tölum í flesta reiti tölfræðiskýrslunnar.  Nemanja Sovic er alltaf öflugur og James Bartolotta sem þeir fengu um áramótin, er mjög sterkur leikmaður.  Fyrir utan þessa 3 útlendinga skarta þeir m.a. gamla reynslubrýninu Eiríki Önundarsyni og Sveinbirni Claesson sem vex ásmegin með hverjum leiknum sem líður en hann var lengi frá vegna krossbandsslits.   ÍR er til alls líklegt í framhaldinu og ég spái þeim öruggum sigri á móti Hamri frá Hveragerði sem þ.a.l. færast óþægilega nærri falldraugnum illvíga!

Stjarnan – Snæfell.  Snæfellingar hafa endurheimt alla sína menn og eru óárennilegir fyrir lokaátökin.  Þar sem ég spái KR-ingum tapi á móti okkur þá fara Snæfellingar langt með að tryggja Deildarmeistaratitilinn með sigri í þessum leik og ég spái því að þeir geri það!  Stjörnumenn hafa ekki náð sér nægilega vel á strik að undanförnu og steinlágu til að mynda fyrir ÍR í síðustu umferð, 100-81.  Justin Shouse er ekki svipur hjá sjón m.v. það sem hann var og munar um minna fyrir Stjörnuna.

Haukar – Njarðvík.  Njarðvíkingar hafa tekið miklum stakkaskiptum á nýju ári eða allt frá því að Frikki Ragnars og Einar tóku við þjálfuninni af Sigga Ingimundar.  Þótt ég hafi mikið álit á Frikka sem þjálfara og Einari sömuleiðis, þá finnst mér hæpið að eigna þeim allan heiðurinn af þessum viðsnúningi.  Njarðvíkingar skarta núna 3 útlendingum og m.a. Giordan Watson en við reyndum að semja við hann um það leyti sem Jeremy Kelly kom til okkar en ekki tókst að hafa upp á honum né umboðsmanni hans.  Giordan byrjaði með flugeldasýningu í sínum fyrsta leik á móti erkióvininum úr Keflavík og setti 40 stig og gaf 5 stoðsendingar í sigri Njarðvíkinga.  Nokkuð ljóst að Njarðvík verður  óárennilegur andstæðingur fyrir hvaða lið sem er í 1.umferð úrslitakeppninnar….  Ég spái Njarðvíkingum öruggum sigri í þessum leik.

Ef spádómar mínir rætast verður þetta staðan:

1.       Snæfell                17/3

2.       KR                        15/5

3.       Grindavík            14/6       (erum í 3. sæti vegna betri innbyrðisstöðu gegn Keflavík)

4.       Keflavík               14/6

5.       Stjarnan              10/10   

6.       ÍR                         9/11       (eru í 6. sæti vegna betri innbyrðisstöðu gegn Njarðvík)

7.       Njarðvík               9/11

8.       Haukar                 8/12       (eru í 8. sæti vegna betri innbyrðisstöðu gegn Tindastóli)

9.       Tindastóll            8/12    

10.   Fjölnir                  6/14       (eru í 10. sæti vegna  b  betri innbyrðisstöðu gegn Hamri)

11.   Hamar                 6/14

12.   KFÍ                       4/16

 

Við skoðum stöðuna svo eftir þessa umferð og athugum hversu sannspár ég reyndist vera…

Áfram Grindavík!