Grindvíkingar komu í veg fyrir að KR-ingar myndu bæta met sem Grindavík á þátt í, þegar Dominos-deildin hófst í gær en KR-ingar höfðu unnið alla leiki sína fyrir áramót, alls 11 leiki en metið stendur ennþá……
Leikurinn var gríðarlega sveiflukenndur en Grindvíkingar byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta fjórðung, 20-25.
KR herti greinilega vörnina í 2. leikhluta því ekkert gekk hjá okkar mönnum að skora og eftir dágóðan tíma var KR að mala þann fjórðung, 18-5! Þá tóku gulu gestirnir við sér og breyttu stöðunni 38-30, í 41-51 sem urðu hálfleikstölur.
KR-ingar byrjuðu svo betur í seinni hálfleik með svipuðu run-i og í 2. leikhluta og voru komnir yfir en aftur tók Grindavík við keflinu og landaði tiltölulega öruggum sigri í lokin 98-105.
Eftir brösugt tímabil til þessa sökum Kanavesens og svo meiðsla undir það síðasta fyrir jól, er ljóst að Grindavík getur svo sannarlega blandað sér í toppbaráttuna!
Loksins er kominn Kani af sama caliber og Kanar undanfarinna ára! Lewis Clinch er einfaldlega frábær leikmaður og á bara eftir að verða betri, það fullyrði ég! Í gær skoraði hann 34 stig, tók 6 fráköst og gaf 7 stoðsendingar (ég var reyndar viss um að hann hefði farið vel yfir 10 stoðsendingar…..)
Þegar Siggi Þorsteins spilar svona eins og í gær, þá er hann einfaldlega langbesti miðherjinn í deildinni! Frábær tvenna frá ísfirska tröllinu, 24 stig og 12 fráköst.
Ég get ekki betur séð en sá Ómar sem gerði frægan með ÍR á sínum tíma í Hertz-hellinum, sé mættur í gula búninginn! Ómar er búinn að vera frábær að undanförnu og skilar hlutverki sínu frábærlega.
Óli Ól er greinilega búinn að jafna sig alfarið á þeim meiðslum sem hann varð fyrir á sínum tíma. Hann er greinilega í hörku formi og á bara eftir að vaxa og dafna enn frekar.
Jói Ólafs og Lalli sem báðir glímdu við meiðsli fyrir jól, eiga helling inni og ekki er það nú ónotalega tilfinning að vita það hafandi komið með sigur í farteskinu í gær úr DHL-höllinni…..
Ungu strákarnir, Jón Axel, Jens, Hilmir og sá nýjasti, Kjartan Helgi Steinþórsson, fengu aðeins að spreyta sig í gær án þess að hafa mikil áhrif á leikinn en þeir eiga sömuleiðis ásamt Hinrik og Nökkva, eftir að vaxa og dafna svo ljóst er að framtíðin er björt í grindvískum körfuknattleik.
Frábær byrjun á árinu en það þýðir ekkert að ætla svífa um á bleiku skýi vegna þessa sigurs lengi, næst koma Grindvíkingarnir Davíð Hermanns og Þorsteinn Finnboga ásamt öðrum Haukum í heimsókn og svo styttist nú í stórleikinn í bikarnum á móti Njarðvík………..
Áfram Grindavík!