Skellur í vesturbænum

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík var inn í leiknum í fyrsta leikhluta en eftir það tók KR öll völdin á vellinum og sigraði örugglega 87-58.

KR leiðir því einvígið 2-1 og næsti leikur í Grindavík 1.maí.

 

Hægt er að lesa umfjöllun um leikinn á helstu vefmiðlum og ég nenni ekki að rifja hann meira upp hérna.

Ólafur Ólafsson kom fram í viðtali strax efir leik og hafði eftir sér einhverja vitleysu sem hann hefur nú beðist afsökunar á.
“Fyrr í kvöld í viðtali við fjölmiðla eftir tapleik liðs míns við KR í úrslitum Íslandsmótsins lét ég mjög óvönduð og heimskuleg orð falla í tengslum við kvenfólk í körfubola. Ummæli mín voru sögð í mikilli bræði og eftir erfitt tap en það er þó engin afsökun. Ég á að vita betur enda hef ég stutt kvennalið Grindavíkur dyggilega í allan vetur og veit að hæfileikaríkar konur spila körfubolta jafnt og hæfileikaríkir karlmenn. Ég sem fyrirmynd yngri barna geri mér grein fyrir því að ég á að vanda orð mín er ég fer í viðtöl. Ég vil því biðja alla körfuknattleikshreyfinguna afsökunar á þeim orðum og þá sérstaklega kvenþjóðina sem spilar körfubolta.”

Ólafur veit betur og hefði mátt aðeins pústa áður en hann fór í viðtal við Stöð2 og gæta orða sinna. En eitt má hann Óli nú eiga, viðtöl við hann eru ekki hefðbundin.

Ekki fyrirsjáanlegur eins og margir íþróttamenn sem fara með sömu gömlu frasana þegar sjónvarpsvélarnar eru settar á þá eftir sigra og ósigra.

Ekki heldur fyrirsjáanlegur eins og spekingar á netinu sem detta í augljósasta sniðuga-svarið “sko dóttir mín hefur aldrei grenjað eins og þú á vellinum”

Og síðast en ekki síst ekki fyrirsjáanlegur eins og Grindavíkurliðið er í þessari seríu, KR vörnin hefur hingað til séð fyrir mest öll sóknarkerfi okkar manna og greinilega staðið sig vel í heimavinnunni. Kannski þurfum við eitthvað meira ófyrirsjáanlegt.

Það er annað viðtal sem Ólafur gaf eftir leikinn sem er mun áhugaverðara. Á karfan.is talar hann hreint út um sína frammistöðu og liðsfélaga sína í einvíginu gegn KR. Besti punkturinn er þó hvernig hann talar um upphitunina.
Það sást nefnilega strax í henni að menn voru ekki tilbúnir í leikinn. Ef svipbrigðin og fas á leikmönnunum í upphituninni í kvöld er borin saman við t.d. leik 2 gegn Njarðvík (í Njarðvík) þá er ber himin og haf þar á milli. Þar var mikil einbeiting og ákveðni í öllum aðgerðum okkar manna sem endaði jú m.a. með 58-35 í fráköstum í stað 42-64 í kvöld.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur oft náð að kveikja í stuðningsmönnum Grindavíkur með því að ganga til þeirra og segja þeim að rísa upp. Nú þurfum við það sama frá þér Siggi en snúðu í hina áttina núna, að liðsfélögum þínum, og taktu þig með í reikninginn. Stuðningsmennirnir munu styðja við bakið á ykkur þó við höfum verið rasskellt í kvöld jafnt í stúkunni sem og á velliunum.   Eða erum við að fara sjá KR liðið lyfta bikarnum okkar á okkar heimavelli?

Grindavíkurliðið varð ekkert allt í einu lélegt. Það er miklu betra en það hefur sýnt hingað til í seríunni. Leikmenn og þjálfarar eru í toppgæðaflokki og Grindavík hefur unnið KR tvisvar á þessari leiktíð. Munið VIÐ ERUM BARA TVEIMUR LEIKJUM FRÁ ÍSLANDSMEISTARA-ÞRENNUNNI.