Sigur í fyrsta leik

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík tók á móti Snæfell í fyrsta leik Dominosdeild kvenna í gærkveldi.  Leikurinn var hin besta skemmtun sem endaði í framlengingu þar sem okkar stúlkur tryggðu sér sigurinn.

Grindavík var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og var staðan 51-39 í hálfleik, mest varð munurinn 17 stig.  Í þriðja leikhluta söxuðu gestirnar á stigamuninn og var fjórði leikhlutinn allur í járnum.  Alltaf þegar maður sá að nú væri möguleiki fyrir Grindavík að taka örugga forystu svaraði Hildur Sigurðardóttir með þristi og hélt spennunni áfram. Grindavík tryggði sér hinsvegar sigurinn í framlengingunni 89-85.

Grindavík hefur í sínum röðum stóra leikmenn, María Ben, Helga Hallgrímsdóttir og bandaríkjamaðurinn Lauren Oosdyke. Til að stoppa þær og gegnumhlaup Pálínu þurftu Snæfellsstúlkur oft að brjóta af sér sem varð þeim dýrkeypt undir lokin þar sem þær misstu margar af lykilmönnum sínum útaf með 5 villur.

Allt í allt var þetta frábær skemmtun og ánægjulegt hversu margir stuðningsmenn Grindavíkur mættu í Röstina.  Með þessu áframhaldi verður þetta góður vetur fyrir kvennaboltann í Grindavík.

Mynd hér að ofan fengin frá karfan.is þar sem hægt er að lesa umfjöllun og viðtöl við þjálfara liðanna.