Pettinella kominn heim í Heiðardalinn….

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í dag er Ryan Pettinella kominn heim til Grindavíkur, þar sem honum líður best 🙂

Planið var að mæta óvænt með hann í leikinn á morgun á móti Keflavík en það var eftir á að hyggja bjartsýni mikil.

Fyrst skal það tekið fram að sögusagnir þess efnis að pabbi Ryans komi að þessu eru algerlega úr lausu lofti gripnar.  Hvernig dettur fólki slík vitleysa í hug??  Þessi aðili er fyrirtæki en eins og svo mörg fyrirtæki þá vill forsvarsmaður þess ekki láta nafn síns getið og verður það að sjálfsögðu virt.

Þegar þetta tækifæri kom upp var einfaldlega ekki hægt að segja nei við því.  Hins vegar þurfti að hugsa þetta gaumgæfilega því oft getur verið varasamt að bæta við/breyta liði sem er á sigurbraut en þar sem Ryan er gull af manni og hvers manns hugljúfi, þekkir liðið vel síðan í fyrra og þjálfari og leikmenn þekkja vel til hans, þótti þetta ekki mikil áhætta.  Þar fyrir utan er Ryan frábær leikmaður en hversu mikið hann mun koma til með að spila verður bara að koma í ljós.  Hann hefur ekkert verið að spila í vetur, þ.e. í deild en hefur greinilega kíkt aðeins í ræktina…..  Hann er greinilega í toppformi líkamlega séð en körfuboltalega á hann eflaust eitthvað í land en það er líka allt í besta því seinni umferðin er bara rétt að hefjast.

Styrkur Ryans liggur í varnarleik og fráköstum og get ég ekki ímyndað mér annað en að keppinautar okkar fyllist nettum kvíða að fara mæta Ryan, Sigga og Bullock inni í teig okkar….  Ryan er hörku frákastari og skorar flest sín stig eftir sóknarfráköst en fái hann boltann á réttum stað í sókninni getur hann verið skeinuhættur, sérstaklega í skotum af lyklinum!

Það er gaman frá því að segja að nokkur lið hér á landi reyndu að næla í Ryan en hann hafði ekki áhuga á að fara neitt annað en í Grindavík 🙂

Ég trúi ekki öðru en þetta muni styrkja liðið okkar og efla en það kemur ekkert að sjálfu sér.  Þótt Ryan þekki liðið og liðið hann, þá mun eflaust taka smá tíma að fínstilla þetta en þar sem engin örvænting er í gangi þá kemur Ryan bara hægt og bítandi inn í þetta hjá okkur og liðið mun vonandi bæta jafnt og þétt í til loka tímabils sem vonandi verður í lok apríl í okkar tilviki….. 🙂

Mikilvægur 4.stiga leikur er á morgun í Keflavík.  Við erum efstir í deildinni með 1 tap og Stjarnan og Keflavík koma næst með 3 töp.  Við skiljum Keflavík eftir í bili með sigri en fáum nágranna okkar upp að okkur ef við töpum.  Það viljum við ekki og eru allir hvattir til að mæta á leikinn og styðja sína menn.

Áfram Grindavik!