Pælingar um baráttuna framundan

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Á morgun er komið að því sem allir körfuknattleiksunnendur hafa beðið eftir, sjálfri úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Ef þið vissuð það ekki þá eru það ríkjandi Íslandsmeistarar Grindavíkur og Stjarnan úr Garðabæ sem munu býtast um dolluna og þarf að vinna 3 leiki til að standa uppi sem sigurvegari.  Grindavík hefur heimaleikjarétt sem þýðir að ef til 5.leiks kemur sem jafnframt yrði hreinn úrslitaleikur, þá er hann leikinn í Röstinni okkar.  Við skulum spá aðeins í spilin.

Grindavík tryggði sér sanngjarnt Deildarmeistaratitilinn en liðið var jafnbesta liðið í allan vetur.  Liðið fór auk þess í undanúrslit Fyrirtækjabikarsins þar sem við þurftum að lúta í lægra haldi fyrir Snæfelli sem var á heimavelli og svo komumst við í úrslitaleikinn í aðalbikarkeppninni en þar þurftum við að bíta í það súra epli að tapa og það fyrir komandi andstæðingi, Stjörnunni.

Stjarnan bætti við sig erlendum leikmanni um áramótin og kom bakslag í segl þeirra í kjölfarið og töpuðust nokkrir leikir í röð hjá þeim en hafa ber í huga að þau töp voru flest á móti sterkum andstæðingum þar sem sigurinn hefði getað endað Stjörnumegin.  Það var kannski bara á móti Njarðvík sem virkilega hrikti í stoðunum.  Nýji Kaninn þeirra, Jarryd Frye virtist ekki smella vel inn í liðið og tók ansi mikið til sín á kostnað annarra leikmanna.  Því vorum við Grindvíkingar ansi hreint bjartsýnir fyrir bikarúrslitaleikinn!  En Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnumanna náði að snúa blaðinu við og í kringum bikarúrslitaleik komust Stjörnumenn á beinu brautina og hafa nokkurn veginn haldið sér á henni síðan.

Allt tal um að þetta sé eitt dýrasta lið sögunnar er kjánalegt og skiptir nákvæmlega engu máli!  Stjarnan er einfaldlega vel mannað lið með valinn mann í nánast hverju rúmi.  Liðið teflir fram tveimur erlendum Íslendingum, þeim Justin Shouse og Jovan Zradveski og eru auk þess með Bandaríkjamennina Brian Mills og fyrrnefndan Jarryd Frye.  Helstu íslensku kanónurnar þeirra eru Marvin Valdirmarsson og fyrirliðinn, Fannar Helgason.

Sumir vilja meina að lykilinn að því að stöðva Stjörnumenn sé að halda Justin Shouse niðri.  Shouse er frábær leikmaður, ekta leikstjórnandi sem hugsar fyrst og fremst um að koma liðfélögum sínum af stað en getur líka tekið af skarið ef þannig ber undir.  Ég tel ansi mikilvægt að reyna halda Shouse sem mest í skefjum.

Jarryd Frye viriðist hafa verið mikill happafengur fyrir Stjörnumennina en þar er á ferð frábær leikmaður.  Hann er einkar lunkinn við að keyra að körfunni og þarf helst að reyna þröngva hann í skot utan af velli en þetta var þekkt staðreynd þegar komð var í bikarúrslitaleikinn en það virtist ekki skipta máli þá…..  Hann fór illa með okkur í bikarúrslitunum og líka í deildleiknum sem fram fór stuttu eftir bikarúrslit og við einfaldlega verðum að halda honum betur í skefjum ef ekki á illa að fara.

Brian Mills virtist ekki vera að gera merkilega hluti fram eftir vetri en hann gekk í endurnýjun lífdaga við komu landa síns í liðið um áramótin.  Eftir smá hökt eins og fram hefur komið þá komst Mills í gang og hefur verið öflugur undir körfu þeirra bláklæddu og ljóst að Siggi Þorsteins og Ryan þurfa að hafa góðar gætur á honum.

Við vitum alveg hvað Jovan getur.  Hann getur dottið í all svakalegan skotgír og hittir úr ótrúlegustu skotum og ljóst að ekki má líta mikið af honum.  Hann hefur spilað vel að undanförnu.

Marvin hefur verið að glíma við meiðsli og gengur held ég ekki heill til skógar og gæti munað um minna  fyrir Stjörnumenn því á góðum degi er Marvin hörkugóður leikmaður.

Fannar er baráttuhundur af gamla skólanum sem lætur mest til sín taka í vörninni og fráköstum.

En nóg um Stjörnumenn……………

Ég hef hugleitt þessa komandi baráttu mikið að undanförnu og geng hnarreistur til leiks!  Kannski er beygur í einhverjum eftir síðustu tvo leiki á móti Stjörnunni en í mínum huga er hræðsla algerlega óþörf.  Ekki misskilja mig, Stjarnan er vissulega með gott lið eins og áður hefur komið fram en að mínu mati eru þeir að fara mæta miklu betra liði núna en þeir mættu í þessum tveimum leikjum í febrúar.  

Við vorum einfaldlega í ákveðinni lægð á þessum tímapunkti sem skýrist á því að Ryan Pettinella var nýlega kominn til liðsins og eins og með Stjörnumennina þegar þeir fengu Frye, þá tókum við ákveðna dýfu líka.   Ómar hafði leikið nokkuð stórt hlutverk fyrir áramót en hann þurfti að fórna mestu við komu Ryans svo við töpuðum nokkuð miklu frá Ómari.  Ryan var ekki svipur hjá sjón m.v. hvernig hann er í dag og ekki má gleyma að David Ingi Bustion var frá vegna meiðsla en sá drengur hefur heldur betur sýnt hvað í hann er varið að undanförnu!  Svo málið er einfalt, við erum miklu betri í dag en við vorum fyrir rúmum mánuði.

Þess vegna má einfaldlega gera ráð fyrir gríðarlegri baráttu og vonandi mikilli skemmtun á næstunni.  Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þessi sería fari í oddaleik og mig grunar að hvort lið muni stela leik á útivelli!

En það er mjög mikilvægt að mínu mati að byrja vel og gefa tóninn með góðum sigri á morgun.  Reynslan segir mér að Röstin verði þétt setin og nú ríður á að STUÐNINGSMENN mæti og láti vel í sér heyra.  Stuðningur okkar getur riðið baggamuninn!

Allt verður lagt í umgjörðina á leiknum og er Egill Birgis tilbúinn með frábært kynningarmyndband!

Vonandi ákveða sem flestir að sleppa því að elda annað kvöld og koma á Salthúsið og fá sér hamborgara sem verða grillaðir af grillmeisturum stjórnar kkd.umfg.  Þó gæti atvinnukokkur sett upp kokkahúfuna, kemur í ljós á morgun……

Stjörnumenn eru velkomnir á Salthúsið fyrir leik.

Allir Grindvíkingar eru hvattir til að mæta í gulu og hafa skal í huga að börn yngri en 8 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum.  Það má búast við miklum troðningi og öll hlaup og leikir barna á meðan leik stendur eru ekki ýkja æskileg.  Vonandi kemur fólk til að hvetja og standa þétt við bakið á sínum mönnum.  Þannig getum við haldið Íslandsmeistaratitlinum í okkar röðum, þar sem hann á heima.

Áfram Grindavík!