Óþarfa spenna!

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Það var skrýtinn leikur sem maður varð vitni að í kvöld í Röstinni þegar Grindavík tók á móti Keflavík í 11.umferð og þeirri síðustu fyrir jólafrí.

Mig minnir að Paxel hafi komið okkur í 60-41 með 3-stiga körfu en Keflavík svaraði strax með 2 þristum og svo 2-stiga körfu og svo munurinn datt mjög fljótt niður í 11 stig, 60-49. Barningurinn hélt svo áfram hjá okkur en bæði varð vörnin lélegri af einhverjum orsökum og flæðið í sóknarleiknum hvarf. Áður en ég gat blikkað auga voru Keflvíkingar komnir yfir, 71-72….. Í raun fáranlegt m.v. hvernig leikurinn hafði þróast en sem betur fer stigu okkar menn upp í lokin og kláruðu leikinn 79-75.

Það er ekki oft sem Ármann Vilbergs er stigahæstur okkar manna en það afrekaði hann í kvöld með 15 stig og var með 5/5 í 3-stiga skotum og öll fóru þau svoleiðis rakleiðis beint ofan í körfuna („nothing but net…. :)“) Frábær innkoma hjá Mannanum og óskandi að hann haldi svona áfram en hann hefur átt sitt besta tímabil í vetur frá upphafi að mínu mati. Gersamlega baneitruð skytta þegar sá gállinn er á honum!

Okkar besti maður og kannski langbesti maður, var samt Ryan Pettinella. Þvílíkur gullmoli sem þessi náungi er! Hann skilaði 14 stigum, 16 fráköstum og 3 vörðum boltum en ég leyfi mér nú að setja spurningarmerki við 3 varða bolta í tölfræðiskráningu Eyfa….. 🙂 En alla vega breytti hann fjöldamörgum skotum andstæðingins og átti teiginn svoleiðis með húð og hári! Það var fyndið að sjá Keflvíkingana reyna að eiga við hann inni í teig! Þvílík himnasending sem hann er!!

Óli Ól skilaði næst bestu framlagi eða 18 og átti eina alveg hreint yndislega viðstöðulausa troðslu eftir sendingu frá bróður sínum. 14 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar var það helsta hjá honum en auk þess spilaði hann fantagóða vörn á Hörð Axel en svoleiðis lagað kemur ekkert endilega fram á tölfræðiskýrslunni en 6/17 í skotum Harðar segir einhverja sögu….

Paxel var flottur kvöld með 14 stig, 6 fráköst og flestar stoðsendingar eða 4. Merkilegt nokk þá kom hann ekki eins sterkur út í +/- eins og oft áður en þar tróndi bróðir hans hann Manni á toppnum.

Lalli er ennþá á leiðinni í sitt besta en nálgast það greinilega nokkuð örugglega. Baráttuviljinn smitar út frá sér en stundum finnst mér kappið hlaupa aðeins með hann í gönur og ákvarðanatakan stundum ekki alveg upp á 10. En Lalli verður betri með hverjum leiknum sem líður sem er ansi góð tilhugsun.

Ómar kláraði leikinn svellkaldur af vítalínunni í kvöld en ég held að Ómar sé ekki alveg búinn að jafna sig eftir að hann sneri sig illa á ökkla gegn KR 29.nóvember en hann hlýtur að gera það núna í jólafríinu og það er besta mál.

Jeremy Kelly sem ég hef fulla trú á að eigi eftir að reynast frábær leikmaður, náði sér ekki á strik í kvöld og lenti enn og aftur í villuvandræðum. Hann má vera skynsamari stundum og er klárlega ekki kominn inn undir hjá dómurunum ennþá en það breytist um leið og hann fer að sýna sitt rétta andlit.

Þáttur Björns Steinars kemur ekkert svakalega skýrt fram í tölfræðinni en hann spilaði fantavörn, við eigum bara skotin hans inni 🙂

Það er ansi erfitt að ætla meta frammistöðu Helga Björns á þeim 49 sekúndum sem hann spilaði… Ég ætla samt að láta þau orð falla að það er frábært að fá þennan Grindvíking heim og hef ég fulla trú á að hann eigi eftir að láta ljós sitt skína skært hér í Paradísinni 🙂 Hann er nautsterkur og harðduglegur og á örugglega eftir að hjálpa liðinu vel í vetur.

Frábærum fyrri hálfleik körfuboltavertíðarinnar þar með lokið og hljótum við að una mjöööög sáttir við okkar. Höfum tapað 2 leikjum en í þá leiki vantaði Dre Smith og svo í seinni leikinn vantaði Ryan og Lalla. Það yrði einhvern tíma flokkað undir skarð fyrir skyldi….

Áfram Grindavík