Ólöf Rún heim í Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Ólöf Rún Óladóttir hefur skrifað undir samning við Grindavík og mun leika með félaginu í Subway-deild kvenna á næstu leiktíð. Þetta eru frábær tíðindi fyrir Grindavík að endurheimta uppalin leikmann en Ólöf Rún hefur leikið með Keflavík undanfarin tímabil.

Ólöf Rún er 22ja ára gömul og var með 4,6 stig að meðaltali með Keflavík í vetur en liðið varð deildarmeistari. Ólöf er mjög öflugur bakvörður og frábær þriggja stiga skytta. Endurkoma hennar til Grindavíkur styrkir lið félagsins verulega. Hún lék upp alla yngri flokka með Grindavík en skipti yfir í Keflavík fyrir tímabilið 2020/2021.

„Það er frábær tíðindi að fá Ólöfu Rún aftur til félagsins. Hún er fyrst og síðast Grindvíkingur og við erum mjög stolt af því að eiga svo margar góðar uppaldar körfuboltakonur. Ólöf Rún mun vera í stóru hlutverki hjá Grindavík á næsta tímabili og erum við í skýjunum með að fá hana aftur heim,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Ólöfu Rún velkomna heim til félagsins og hlökkum við til að sjá hana í gulu í nýrri HS Orku Höll á næsta tímabili.