Ólöf Helga valin þjálfari ársins

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Ólöf Helga Pálsdóttir er þjálfari ársins 2021 í Grindavík. Valið var kunngert núna um áramótin. Ólöf Helga er vel að þessari útnefningu komin en hún stýrði ungu og reynslulitlu liði mfl. kvenna í körfubolta til sigurs í úrslitakeppni 1. deildar kvenna sl. sumar.

Liðið, sem bjó yfir frábærri liðsheild, bætti sig mikið á tímabilinu undir hennar stjórn. Liðið endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni en bar sigur úr býtum í úrslitakeppni deildarinnar. Þar hafðið liðið lent 2-0 undir i úrslitaeinvíginu en undir stjórn Ólafar Helgu átti liðið ótrúlega endurkomu. Árangur liðsins mun verða lengi í minnum hafður í sögu körfuknattleiksdeildar UMFG.

Pálmar Guðmundsson, knattspyrnuþjálfari, var einnig tilnefndur í kjörinu. Í hans umsögn segir: Pálmar fagnaði á árinu 15 ára starfsafmæli sem þjálfari. Hann hefur sérhæft sig í þjálfun yngri leikmanna og tekur vel á móti yngstu og mikilvægustu leikmönnunum með reynslu, þekkingu og hugsjón.