Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík leikur á morgun einn mikilvægasta leik sinn á þessu tímabili þegar þeir mæta Haukum á útivelli í undanúrslitum Powerade-bikarsins en það er „stóri“ bikarinn.

Eftir frábært gengi í vetur hefur liðið heldur betur hikstað að undanförnu og tapaði m.a. fyrir Haukum á heimavelli fyrir stuttu og það á sannfærandi hátt!  Haukarnir hafa sett kynningarmyndband inn á youtube og eru greinilega að búa til mikla stemningu á meðal sinna stuðningsmanna og því verðum við bestu stuðningsmenn landsins, að mæta með fullum þunga!  Oft var þörf en nú er NAUÐSYN!!

 

Margir hafa velt því fyrir sér hvernig stendur á þessari neikvæðu breytingu á leik liðsins að undanförnu.  Ég er ekki það mikill sérfræðingur á sviði körfuknattleiks að ég geti efnagreint vandamálið en það má velta því aðeins fyrir sér og það ætla ég að gera í þessum pistli.

Margir hafa verið sammála um að okkar helsti styrkleiki í vetur hefur verið vörnin.  Tölfræðin staðfestir það því ennþá höfum við fengið fæst stig á okkur í vetur.  Sóknarlega höfum við ekkert verið frábærir en kanaskipti hafa langt í frá hjálpað til við það.  En vörnin hefur oft á tíðum verið frábær og það hefur fleytt okkur þangað sem við erum, öðru fremur.  En þessi frábæra vörn hefur týnst að undanförnu og maður spyr sig hvernig standi á því.  Ég sá ekki fyrstu leikina á nýju ári en þangað til í leiknum á móti ÍR, þá spiluðum við kanalausir.  Auðvitað spilar það einhverja rullu í verri alhliðaleik okkar en við vorum samt að vinna þessa fyrstu leiki á nýju ári.  Mér skilst að liðið hafi ekki verið að spila vel og langt frá sínu besta en samt unnum við þessa leiki enda andstæðingarnir ekki beint af dýrari gerðinni.  Fyrsti leikurinn sem ég sá var á móti Haukum á heimavelli.  Þá var búið að ganga frá ráðningu á nýjum bandarískum leikmanni og hans beðið með eftirvæntingu og kannski slökuðu okkar menn á við þá tilhugsun.  Alla vega var ljóst að menn mættu engan veginn tilbúnir í það verkefni og Haukarnir tóku okkur í kennslustund!  Það var alveg sama hvort litið var til varnar- eða sóknarleiks, bæði atriði voru hreinasta hörmung!  Gott og vel, smá hikst var kannski ekki ástæða til mikillar örvæntingar og ljóst að liðið myndi mæta fullskipað í næsta leik en n.b. þá höfðum við ekki tapað leik með fullskipa hersveit í allan vetur.  En sama andleysið mætti í leikinn á móti ÍR og áður en maður gat blikkað auga voru ÍR-ingar komnir í öruggt forskot sem þeir voru aldrei líklegir til að tapa niður, svo mikið var andleysi okkar manna.  Trekk í trekk fengu ÍR-ingar opin 3-stiga skot sem þeir nýttu vel og þeir löbbuðu að vild inn í teig okkar manna og skoruðu auðveld stig.  Sóknarleikurinn átakanlegur hinum megin og maður spurði sig hvort þetta væri sama lið og rúllaði yfir KR og Keflavík rétt fyrir jólafrí…..

Hvað er að?  Eru leikmenn búnir að gleyma þeirri frábæru liðsvörn sem Helgi þjálfari hefur innprentað í þá í vetur með frábærum árangri??  Varla, þetta hlýtur að vera andlegs eðlis.  Værukærð er eitthvað sem grindvísk íþróttalið hafa ekki getað tamið sér í gegnum tíðina, það hef ég margoft minnst á.  Við höfum oft dottið niður á sama plan og andstæðingurinn en fyrir áramót sá maður það varla og er því að þakka hin góða vörn sem liðið hefur spilað.  Lykillinn hlýtur því að vera að finna aftur þessa vörn og lykillinn að þessari vörn hlýtur að vera hugarfarið.  Ef menn mæta með blóðbragð í munni þá eru meiri líkur á að vörnin smelli og í eins mikilvægum leik og leikur morgundagsins er, þá trúi ég bara hreinlega ekki öðru en okkar menn mæti dýrvitlausir til leiks.  Það er engin ástæða til örvæntingar, við erum ekkert allt í einu orðið lélegt körfuboltalið.  Getan er ennþá til staðar og menn mega alls ekki missa trúna á eigin getu.  Málið er bara að finna neistann aftur og neistinn byrjar að tendrast inni í búningsklefa þegar menn gera sig klára.

Ég held að allir okkar menn hafi leikið undir getu eftir áramót.  Hershöfðinginn í teignum, Ryan Pettinella hefur ekki verið sama skrímslið og hann var og við þurfum á því að halda að hann rífi sig virkilega vel upp.  Þótt vítanýting hans hafi heldur farið niður við og ekki mátti hann beint við því…., þá finnst mér allt annað  að sjá hann taka vítaskotin núna og er ég  viss um að hann er að detta í 50% nýtingu hið minnsta.  En við þurfum virkilega á því að halda að hann bindi vörnina saman á nýjan leik og rífi niður 15 fráköst og setji sín 15-20 stig niður.

Okkar helsti skorari, Paxel, hefur ekki náð sér nægilega vel á strik að undanförnu og náði vonandi botninum í síðasta leik á móti ÍR.  Hann gengur ekki alveg heill til skógar og getur ekki æft sem skyldi og verðum við bara að vona að hann nái sér 100% af meiðslunum og nái fyrri styrk.  Á fullum styrk er Paxel einn öflugasti sóknarleikmaður landsins og við þurfum svo sannarlega á honum að halda „í gírnum“.

Nýji kaninn, Kevin Sims, heillaði engan upp úr skónum í sínum fyrsta leik en það er mjög ósanngjarnt að dæma hann út frá honum.  Allt liðið var á hælunum og ekki gott fyrir hann að láta ljós sitt almennilega skýna við slíkar aðstæður.  Við getum verið sammála um að hann hefur ekki hæðina með sér og þá einfaldlega hlýtur hann að búa yfir miklum hraða og það sýndi hann stundum í leiknum á móti ÍR.  Stundum er lykilorðið hér að mínu mati en hann þarf ALLTAF að sýna þennan hraða og ógna með honum.  Mér fannst eins og hann væri bara í 1. – 2.gír allan tímann.  Hann kemur úr mjög sterkum háskóla þar sem hann var byrjunarleikstjórnandi og mætti mönnum eins og Derrick Rose sem spilar með Chicago Bulls í NBA en öllum má vera ljóst að hann hefði varla fengið að vera vatnsberi í þessu háskólaliði með frammistöðu eins og á móti ÍR!  Kannski kemur hann hingað til Íslands og vanmetur deildina en eftir þennan fyrsta leik þá vonandi sér hann að hér er spilaður alvöru bolti og þarf kannski að „sparka“ aðeins í afturendann á honum og vekja hann til lífsins!!  

Þessi pistill er orðinn nógu langur og kannski allt of langur svo ég læt vera að fjalla nánar um aðra leikmenn en allir hafa þeir leikið undir getu að undanförnu og þurfa einfaldlega að rífa sig upp úr ládeyðunni, við þurfum á því að halda.

Stuðningur við liðið hefur verið góður í vetur en eins og segir í titli þessa pistils, þá var oft þörf en nú er nauðsyn!!  Haukarnir eru að safna liði og við þurfum virkilega á því að halda að stuðningsmenn mæti og það sem mikilvægara er, láti vel í sér heyra.  Þónokkrir Grindvíkingar mættu á ÍR-leikinn en nokkrir strákar í stuðningsliði ÍR kæfðu okkur með skemmtilegum söng sínum.  Þetta gerðum við fyrir nokkru og mun ég mæta með texta á leikinn á morgun og dreifa til ykkar og ríður á að allir taki þátt!!  Sameinuð eru okkur allir vegir færir og þegar sá gállinn er á okkur, þá erum við besta stuðningsfólk landsins.  Sýnum það og sönnum á leiknum á morgun!

Áfram Grindavík!