Grindavík hefur samið við ástralska bakvörðinn Marshall Nelson sem er væntanlegur til félagsins á næstu dögum. Nelson er 27 ára gamall og er með belgískt ríkisfang. Hann lék með Jamtland í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og var þar með 8,4 stig að meðaltali í leik.
„Marshall er hæfileikaríkur bakvörður sem bæði getur tekið upp boltann og er góður skorari. Hann spilaði í Svíþjóð á síðasta tímabili ásamt því að spila í Ástralíu. Ég tel hann passa vel inn í mínar hugmyndir um sóknar- og varnarleik,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur.
Marshall kemur til með að styrkja lið Grindavíkur sem verður án Dags Kárs Jónssonar í næstu leikjum vegna meiðsla. Einnig kemur hann til með að fylla skarð Sigtryggs Arnars Björnssonar sem hélt fyrr á þessu ári til Spánar í atvinnumennsku.
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Marhall Nelson velkominn til Grindavíkur!