„Maður missir sig stundum“

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Gylfi á Papas er grjótharður stuðningsmaður Grindavíkur í körfu

Gylfi Arnar Ísleifsson eða Gylfi á Papas er eitilharður stuðningsmaður Grindavíkur og hefur verið um árabil. Hann situr yfirleitt efst í stúkunni í sínu sæti í HS Orku Höllinni. Hann sendir vissulega dómurum sneiðar af og til í leikjum en er allur að róast, að eigin sögn. Gylfi tengist körfunni í Grindavík líka tilfinningaböndum en sonur hans, Kristófer Breki, er í stóru hlutverki hjá karlaliði félagsins og því fylgist Gylfi afar vel með sínum liðum í Subwaydeildum karla og kvenna. Við fengum Gylfa í stutt spjall þar sem við ræddum um tímabilið sem farið er af stað, ferilinn í körfunni og einstakan áhuga á Subway-spjallinu.

Hvernig lýst þér á upphaf tímabilsins í körfunni hjá Grindavík?
„Ég er gríðarlega ánægður með hvernig liðin okkar hafa farið af stað. Það er góð holning á karlaliðinu og þetta eru flottir strákar sem við höfum fengið inn í liðið í haust. Við höfum ekki verið svona vel spilandi síðan 2013,“ segir Gylfi. Hann telur sig duglegan að mæta á völlinn. „Ég mæti á flesta leiki. Aðeins minna kvennamegin en ég reyni að horfa alltaf á leikina í sjónvarpinu ef ég kemst ekki á svæðið.“

Það eru læti í þér á pöllunum ekki rétt?
„Það eru töluvert meiri læti í Atla Kolbeini,“ segir Gylfi og hlær. „Við höfum myndað skemmtilegt tvíeyki og erum yfirleitt skammaðir í flestum leikjum fyrir óþroskað orðbragð. Maður missir sig stundum. Síðustu ár hafa verið svolítið erfið og það hefur reynt á okkur stuðningsmenn að standa með liðinu í gegnum erfiða tíma eftir mikla velgengni,“ segir Gylfi hvass og dregur ekkert undan: „Ég geri þá kröfu að liðið spili körfubolta sem lið. Það er fátt leiðinlegra en að horfa á leikmenn í búningi félagsins sem hugsa bara um sjálfan sig. Körfubolti er liðsíþrótt og miklu skemmtilegra að horfa á gott lið en einstaka fína leikmenn sem hugsa fyrst og fremst um sína eigin tölfræði.“

Á þessum tímapunkti þurfti blaðamaður aðeins að róa Gylfa niður sem gekk hratt og vel fyrir sig. Því næst að leikmannaferli Gylfa. Var hann liðtækur leikmaður?
„Ég náði reyndar aldrei að spila fyrir Grindavík. Spilaði aðallega með ÍG og var mjög liðtækur þar. Ég var algjör hliðarlínu skytta en hitti ekkert annars staðar. Ég var mjög öflugur djúpt í hægra horninu. Líklega hefur Breki sína skothæfileika frá mér,“ segir Gylfi sem er afdráttarlaus þegar hann er spurður hvort hann hefði getað náð lengra sem körfuboltamaður.

„Bergvin skyggði svolítið á mig – það verður að viðurkennast. Hann tók 88% af öllum skotum í leikjum með ÍG og það komst enginn annar að. Það verður samt að viðurkennast að það gekk vel í leikjum þegar Bergvin skaut bara.“

Gylfi og Þormar félagi hans á Papas eru öflugir styrktaraðilar fyrir íþróttir í Grindavík og nýtur Ungmennafélag Grindavíkur svo sannarlega þess að hafa veitingastaðinn Papas með sér í liði.
„Fyrir okkur hjá Papas þá er það sjálfsagt að styðja við okkar félag og allt íþróttastarf í Grindavík. Ég hef sjálfur brennandi áhuga á körfubolta,“ segir Gylfi. „Svo er mjög jákvætt að það sé búið að endurvekja Papas skotið. Atli Kolbeinn er líklega sá eini sem hefur hitt úr því skoti. Það gleymist stundum að Atli er hrikalega góð skytta og flottur í pílu. Hann var vel að þessu kominn en við skulum vona að hann verði ekki sá eini sem hittir úr Papas skotinu.“

Hvernig lýst þér svo á framhaldið?
„Karlaliðinu var spáð 8.- 9. sæti í öllum miðlum fyrir mót. Við hljótum að setja stefnuna á 8. sætið. Það er markmiðið og svo sjáum við til hvort við getum gert betur. Ég hlusta á öll þessi podköst og fylgist vel með. Byrjum á því að tryggja 8. sætið og sjáum svo til. Það væri nú ekki leiðinlegt að troða nokkrum sokkum hér og þar,“ segir Gylfi. Hann hefur mikla trú á kvennaliðinu og að það muni taka stórt skref áfram í vetur.

„Kvennamegin erum við með mjög ungt lið og góða útlendinga. Stelpurnar þurfa að læra að klára leikina betur. Þær eru búnar að vera í nokkrum spennuleikjum í haust þar sem ég hefði viljað sjá þær klára með sigri. Lalli var yfirleitt góður í lok leikja sem leikmaður og mun koma þessu inn hjá sínum stelpum. Þetta er allt að koma hjá þeim og ég hef verið hrifinn af þeim framförum sem þær hafa sýnt frá því á síðasta tímabili.“

Það er ekki hægt að ræða við Gylfa án þess að minnast á þátttöku hans á Subway-spjallinu sem er hópur á Facebook þar sem áhugamenn ræða um íslenskan körfubolta frá ýmsum hliðum. Óhætt er að segja að Gylfi sér öflugur penni á þeim vettvangi.
„Þetta er skemmtileg grúbba,“ segir Gylfi og hlær. „Ég hef mjög gaman af því að taka þátt og upplifa hlið stuðningsmannsins hjá okkur og öðrum félögum. Umræðan fer stundum á flug og maður stingur stundum niður penna í misgáfulegum tilgangi. Fyrst og fremst er þetta til að hafa gaman af þó það sé vissulega stundum gaman að stríða stuðningsmönnum annarra félaga, ég neita því ekki.“

Eitthvað að lokum?
„Það væri frábært að fá fleira fólk á pallanna og mynda öflugan kjarna stuðningsmanna Grindavíkur. Það eru góðir hlutir að gerast í vetur og við getum hjálpað liðunum okkar að ná enn lengra með því að mæta á pallanna og öskra áfram okkar lið.“