Loksins sigur

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Grindavík komst aftur á sigurbrautina góðu í gærkvöldi

eftir mikilvægan sigur í Röstinni á Hamarsmönnum úr Hveragerði.  Lokatölur urðu 87-76 eftir að Hamar hafði haft yfir í hálfleik, 38-41.

Það var alveg vitað fyrir leikinn að hann yrði erfiður.  Ansi miklar breytingar hafa verið gerðar á liðinu og ber þar kannski hæst Kanaskipti en enginn annar en Nick Bradford er mættur aftur á svæðið en hann lék sælla minninga með okkur eftir áramót 2009.  Nick er ekki leikstjórnandi að upplagi þótt hann geti skilað því hlutverki ef á þarf að halda og því ákvað Helgi Jónas að taka skóna fram að nýju.  Lalli var ekki með í gær sökum meiðsla en vonandi er ekki meira en 10 dagar í hann.  Af þessu má sjá að liðið er gjörbreytt og alltaf tekur tíma að púsla saman nýju liði og því var deginum ljósara að þessi leikur yrði okkur erfiður.  Strákarnir stóðust prófið og lönduðu tiltölulega öruggum sigri í lokin.

Allt annað var að sjá til liðsins í gær heldur en að undanförnu og þá aðallega sóknarlega.  Það er eins og þungu fargi hafi verið létt af leikmönnum við þessar breytingar og gekk sóknarleikurinn yfirleitt nokkuð vel og fengum við fullt af opnum skotum en þau voru ekki að detta nógu vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.  Hittnin batnaði til mikilla muna í seinni hálfleik og þá var í raun ekki að sökum að spyrja.   Við vorum komnir í gott forskot í 3. leikhluta en einbeitingarleysi hleypti Hamarsmönnum aftur inn í leikinn en svo tókum við öll völd í 4. leikhluta og kafsigldum Hvergerðingana.  Devin Sweetney sem okkur stóð til boða um það leyti sem við tókum Kevin Sims, hélt Hvergerðingum algerlega á floti en sennilega var nú farið að draga af honum í lokin og þá gengum við á lagið.

Eins og ég segi, það var allt annað að sjá til liðsins.  Maður sá örla fyrir gleði aftur og sóknarleikurinn var allur miklu afslappaðri.

Eins og oft áður var Ryan Pettinella okkar besti maður og skilaði hann hæstu framlagi, 25.  Kappinn setti 16 stig, reif niður 11 fráköst og varði 2 skot.  Hann heldur skrifum mínum um vítanýtinguna hans á lífi en síðan ég skrifaði þetta í byrjun febrúar er hann með u.þ.b. 50% vítanýtingu sem er ca 100% bæting síðan fyrr í vetur!!  Það þarf ekkert að ræða um varnarleik kappans, hann er frábær!

Paxel var flottur í gær og setti  21 stig og var okkar stigahæsti maður.  Maður er samt alltaf að bíða eftir að Palli springi betur út því hann getur náttúrulega dottið í svoddan ægilegan ham!  Hann kennir sér ekki lengur meins í hásinunum og hefur æft mjög stíft undanfarið og er því vonandi að koma upp á hárréttum tíma rétt fyrir úrslitakeppni.  Hann setti 4 af 10 3-stiga skotum sínum niður í gær sem telst gott en eins og ég segi, hann gæti þess vegna sett þau öll niður á góðum degi!

Nick Bradford er stórkostlegur náungi!!  Hann gæti hjálpað liðinu þótt hann væri bundinn við hjólastól!!  Hann smitar þvílíkt út frá sér og aðrir leikmenn einfaldlega njóta þess að spila með honum og verða betri í hans nærveru.  Mér sýndist Nick-arinn vera nett feitur en í ljós kom að hann var með eitthvert bak-belti sem lét hann líta út fyrir að vera þykkari en hann í raun er.  Vissulega er hann ekki í sínu allra besta formi enda ekki við því búast og á hann helling inni.  Þrátt fyrir að hafa ekki leikið í nokkra mánuði og bara æft, þá skilaði hann 19 framlagspunktum í gær með 11 stigum, 8 stoðsendingum og 4 fráköstum.  Hann kann leikinn upp á 10 og var unun að fylgjast með honum oft á tíðum og voru margar af stoðsendingunum virkilega fallegar.  Frábært að fá Nicky B aftur!

Mladen Soskic sem hafði ekki náð sér á strik og þá sérstaklega sóknarlega  síðan hann kom, braust heldur betur út úr lægðinni sinni og spilaði virkilega vel og sýndi að þar fer mjög góður körfuknattleiksmaður.  Hann er þrælgóð skytta, er með góða boltatækni, er hávaxinn og snöggur, hefur þannig séð allan pakkann!  Allir íþróttamenn vita að sjálfstraust er gríðarlega mikilvægt og án þess komast menn hvorki lönd né strönd.  Sjálfstraust hans hefur pottþétt aukist eftir leikinn í gær og má því alveg gera sér vonir um mun betri frammistöðu frá honum í framtíðinni og það er bara mjög notaleg tilhugsun!

Hvað er hægt að skrifa um Helga Jónas sem ekki hefur verið ritað áður???  Ég veit ekki hvort Helgi er búinn að æfa eitthvað með í vetur en að koma inn í fyrsta alvöru leikinn sinn og skila 20 mínútum á þann máta sem hann gerði, er í raun ótrúlegt!  Það var ekki að sjá að þetta væri hans fyrsti leikur en ég tel varla þessa leiki sem hann fór sem varaskeifa í, með.  Nú er Helgi kominn á fullt í baráttuna og það getur bara ekki verið notaleg tilhugsun fyrir andstæðinga okkar!  Í sínu besta formi er Helgi að mínu mati klárlega einn besti leikstjórnandi landsins!  Þrælgóð skytta, frábær varnarmaður, með ótrúlegt keppnisskap og kann leikinn upp á 10.  Frábært að fá hann aftur í gula búninginn.  Þetta gæti hann ekki nema hann væri með góðan aðstoðarmann með sér en hann er ekki bara með góðan aðstoðarmann heldur frábæran!  Gummi B kemur meira inn í þetta núna svo Helgi geti einbeitt sér sem mest að leikmanninum í sér.

Óli troð var óheppinn með villur en arfaslakir dómarar leiksins flautuðu Óla nánast út úr leiknum.   Leikurinn var illa dæmdur á báða bóga en sem betur fer kom það ekki að sök fyrir okkur að þessu sinni, eins og í fyrri leiknum á móti Hamri!

Manni bróðir kom sterkur inn af bekknum og setti 2 risaþrista.  Það væri bara gaman að sjá Manna gera þetta reglulegar.  Björn Steinar spilaði fantavörn og hann hlýtur bara að fara finna skot“touch“-ið sitt aftur.  Ómar er alltaf sami baráttuhundurinn en hann á alveg heilan helling inni og er ég ekki í minnsta vafa um að hann muni skila  því öllu inn á völlinn á næstunni.

Vítanýting liðsins er sér kapituli út af fyrir sig….  Í gær settum við einungis 51% vítaskota okkar niður og það bara gengur ekki upp þegar til lengri tíma er litið.

Ég hef gífurlega trú á þessu liði upp á framhaldið.  Við erum orðnir gríðarlega sterkir inn í teig og þegar Lalli verður kominn aftur og Helgi og Nick komnir í sitt besta form, þá eigum við að geta komið stormandi inn í úrslitakeppnina!  Helgi er frábær 3-stiga skytta, Paxel mun pottþétt finna fjölina sína ennþá betur á næstunni, Mladen getur dritað fyrir utan og Lalli sömuleiðis.  Við erum með allan pakkann til að gera sterka atlögu að þeim stóra.  Lykillinn er bara vörn og aftur vörn.  Vörn kemur úr stemningu og með því að vera búnir að fá stuðboltann Nick aftur þá ætti stemningin að geta orðið ansi góð.  Okkur er því bara ekkert að vanbúnaði.  Við þurfum bara að stilla strengina vel næstu vikurnar og reyna koma okkur sem hæst í töflunni.  Við erum í 3. sæti eins og sakir standa og myndum mæta ÍR eins og staðan er í dag en að ætla spá fyrir um lokastöðuna er eins líklegt til árangurs eins og ætla fá 5 rétta í lottóinu…  Hugsum bara um okkar leik og þá gætu góðir hlutir gerst.

Áfram Grindavík!