Við ætlum okkur titliinn í ár og ljóst að við höfum valið lengri leiðina að honum…..
Grindavík tapaði í hörkuleik fyrir Stjörnunni á heimavelli í gær í 3.leik liðanna og þar með hefur Stjarnan tekið forystu 1-2 og getur tryggt sér titilinn á heimavelli sínum á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25.apríl.
Í mínum huga er hér um tvö mjög jöfn lið að ræða og fyrstu tveir leikirnir og þá sérstaklega leikur nr. 2, gefa ekki rétt mynd af liðunum. Við sáum réttari mynd í gær þar sem aldrei munaði mjög miklu þar til í lokin.
Grindavík leiddi með 3 stigum í hálfleik, 48-45 og sama baráttan hélt áfram í þeim seinni. Eftir að Stjarnan komst 6 stigum yfir, 66-72 komu Sammy og Aaron með sinn hvor 3 stigin, Sammy með einni af fjölmörgum glæsilegum þristum sínum og Aaron með skoti og víti. Stjaran leiddi með “heilu” 1 stigi fyrir lokafjórðunginn og sami barningur var í spilunum.
Liðin skoruðu ekki fyrstu mínúturnar og spennan í hámarki og lengi vel munaði áfram þessu 1 stigi og var bara spurning hvaða lið myndi taka af skarið og því miður fyrir okkur þá voru það Stjörnumenn sem náðu því og unnu því sanngjarnan sigur.
Ég veit ekki með ykkur en ég hef SKO EKKI misst trúna! Þetta eru einfaldlega 2 jöfn lið og við getum allt eins unnið þá í Ásgarði eins þeir unnu okkur í Röstinni. Við Grindvíkingar erum magnaðir þegar við stöndum saman og nú mætum við bara fylktu liði í Garðabæ á fimmtudaginn og komum seríunni í hreinan úrslitaleik á sunnudaginn. Ég sé fyrir mér að við náum okkur í sömu stemningu og forðum á móti KR í 3.leiknum í DHL-höllinni árið 2009. Þá náðum við okkur stórkostlega á strik í stúkunni og þann leik munum við endurtaka á fimmtudaginn.
Meira síðar.
Áfram Grindavík!