Fyrsti alvöru titill tímabilsins er í húfi um helgina, sjálfur fyrirtækjabikarinn sem þetta árið heitir Lengjubikarinn.
Vissulega var flott að verða meistari meistaranna í byrjun leiktíðar eftir sigur á KR en Lengjubikarinn er keppni sem 16 bestu lið landsins taka þátt í og verður hún leidd til lykta í DHL-höll þeirra KR-inga í Vesturbænum.
Grindavík mætir Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum og hefst leikurinn kl. 18:30 og strax á eftir eða kl. 20:30 mætast Snæfell og Keflavík í hinum undanúrslitaleiknum. Úrslitaleikurinn er síðan á laugardag.
Það kostar 1500 kr. inn á undanúrslitin og hægt er að sjá báða leiki og svo kostar 1500 kr. á úrslitaleikinn á laugardaginn. Árskort gilda ekki á þessa leiki.
KR-ingar áttu væntanlega von á því að þeir yrðu eitt fjögurra liða sem myndi leika í undanúrslitum þetta árið fyrst þeir sóttust eftir að halda “Fjögur fræknu”. En það fór á aðra leið og nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn tryggðu sér efsta sæti síns riðils með sannfærandi sigri á KR í seinni leik liðanna en bæðu enduðu þau með 5 sigra og 1 tap í riðlinum. Því verða það Þorlákshafnarmenn sem mæta okkur í undanúrslitum.
Benedikt Guðmundsson tók við stjórnartaumunum hjá Þór í fyrra og kom þeim beint upp í úrvalsdeildina og hafa þeir staðið sig vel í vetur. Benedikt nær alltaf árangri og hann virðist einkar lunkinn við val á erlendum leikmönnum en báðir Kanar Þórs hafa spilað glimrandi vel það sem af er vetrar. Darrin Govens er stigahæstur í Iceland Express deildinni með 27,1 stig og Mike Ringold er næst frákastahæstur með 12,3 fráköst.
Helstu íslensku kanónurnar hjá Þórsurum eru Njarðvíkingurinn Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson. Guðmundur hefur skorað 15,6 stig og gefið 4 stoðsendingar og Darri er með 12 stig og tæpa 2 stolna bolta að meðaltali.
Það er deginum ljósara að lið Þórs er sýnd veiði en ekki gefin og eftir frábært gengi okkar manna að undanförnu er ekki víst að leikurinn rati á Lengjuseðilinn en eins og margoft hefur komið fram hjá mér þá eru þetta hættulegustu augnablikin hjá okkur. Að mæta værukærir til leiks og láta taka okkur nývaknaða í bólinu! Það má ekki gerast þegar svona nærri titli er komið og ljóst að menn þurfa mæta með sama hugarfari og á móti KR um daginn. Ef það lið mætir til leiks er ég ekki smeykur um útkomuna um helgina en það er líka stutt í hinn endann!
Liðið þarf stuðning grindvískra áhorfenda og eru allir hvattir til að láta slag standa og mæta.
Áfram Grindavík!