Ekki tókst Grindavík að tryggja Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í kvöld og því er heldur betur búið að færast líf í þessa seríu en margir voru búnir að afskrifa Þórsarana hans Benna.
Þórsarar voru greinilega ekki tilbúnir að fara í sumarfríið alveg strax og fá annan leik sem þeir verða að vinna til að knýja fram hreinan úrslitaleik. Leikur nr. 4 er í Þorlákshöfn á miðvikudag og hefst kl. 19:15.
Hvað skal segja um þennan leik? Við byrjuðum betur en svo voru Þórsararnir einfaldlega skrefi á undan okkur allan tímann. 5 stigum munaði í hálfleik og einhvern veginn var ég alltaf að bíða eftir run-i hjá okkur í seinni hálfleik og átti von á að Govens o.fl. myndu þreytast þar sem hann t.d. spilaði nánast allan leikinn. En þvert á þessar spár mínar bættu Þórsararnir við og komu muninum upp í 13 stig að mig minnir! 11 stigum munaði fyrir lokafjórðunginn og ljóst að okkar myndu þyrftu að ná áhlaupi sem fyrst en Þórsararnir náðu að halda muninum nokkurn veginn eins þar til yfir lauk. Auðvitað er körfuboltaleikur oft á tíðum seint búinn…. Við brutum og Þórsararnir þurftu ekkert að klikka á mörgum vítaskotum – gegn því að við myndum hitta 3-stiga skotunum til að leikurinn myndi snúast við en miðið var bara einhvern ekki rétt stillt í kvöld og því unnu Þorlákshafnarmenn sanngjarnan sigur, 91-98.
Ég veit ekki hvort ég á að vera taka einhvern út úr þessu hjá okkur í kvöld, allir áttu einhvern veginn down leik.
Frábær mæting var á leikinn en hins vegar er ekki hægt að segja að stemningin og stuðningurinn hafi verið frábær. Hálf sorglegt að meginþorri fólks sem mætti á leikinn, skuli ekki taka undir stuðninginn og fylgja þeim eftir sem eru að reyna leiða hersveitina. Það er enginn að biðja um að allir taki sig til og byrji baráttuópin eða -söngvana en hins vegar er ekki ósanngjarnt að biðja um að fólk taki undir. Við vitum hvers lags fítonskraftur þetta getur verið fyrir leikmenn og því mjög mikilvægt að ALLIR taki undir.
Fólk tekur þessu vonandi vel og mætir brjálað til leiks á miðvikudagskvöld. Við viljum ekkert fara fá þessa seríu í hreinan úrslitaleik og ætlum okkur einfaldlega að klára dæmið á miðvikudaginn. Ég tel okkur vera með betra lið þó það hafi ekki sést í kvöld og til þess að liðið okkar sýni sitt besta, þurfa allir að mæta og HVETJA!
Áfram Grindavík!