Leikur nr. 2 í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar fer fram í kvöld í Njarðvík og hefst kl. 19:15. Kannski verður þetta síðasti leikur Njarðvíkur fyrir sumarfrí en Grindavík tryggir sig í undanúrslitin með sigri. M.v. síðustu 2 leiki á milli þessara liða er líklegra en ekki að sú verði raunin…..
Það var aldrei nokkur einasta spurning um útkomuna í síðasta leik og í raun var það sama uppi á teningnum eins og í leik liðanna í lok deildarkeppninnar. Njarðvíkingar voru sem börn í höndunum á okkur og útlendingarnir 2 hjá Njarðvík, þeir Cameron Echols og Travis Holmes áttu ekki séns í okkar menn. Því var sigurinn verulega áreynslulítill.
Það er algert grundvallaratriði fyrir Njarðvíkinga að Kanarnir þeirra 2 nái sér verulega vel á strik. Það er annað hvort í ökkla eða eyra hjá Travis, á góðum degi fer hann auðveldlega yfir 40 stigin en getur alveg horfið þess á milli. Cameron sem hefur verið góður í vetur hefur átt mjög erfitt uppdráttar inn í teignum og er oft 1 á móti 2-3 stórum og sterkum leikönnum okkar! Mér fannst Palli frændi (Páll Kristinsson) í raun vera sterkastur Njarðvíkinga undir körfunni í síðasta leik en stig Camerons komu flest með skotum utan af velli. Svo eins og ég segi, ef Kanar Njarðvíkinga skila ekki að lágmarki 60 stigum þá held ég að björninn sé unninn hjá okkur….
Eftir smá hikst eftir að deildarmeistaratitillinn var tryggður erum við aftur komnir í gang svo um munar! Vörnin hefur verið frábær að undanförnu og sóknin gengið nokkuð vel smurð. Þegar við mætum tilbúnir til leiks þá erum við einfaldlega besta lið landsins við og ef við mætum tilbúnir í kvöld, er ég nokkuð viss um að við siglum skútunni örugglega í undanúrslit.
Grindvíkingar eru hvattir til að mæta í Ljónagryfjuna í Njarðvík og láta vel í sér heyra!
Áfram Grindavík!