Kristinn Pálsson til Grindavíkur

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur náð samkomulagi við Kristinn Pálsson sem mun leika með Grindavík næstu tvö keppnistímabil í Dominos-deild karla.

Kristinn kemur frá uppeldisfélagi sínu í Njarðvík þar sem hann hefur leikið sl. tvö tímabil eftir að hafa komið heim úr bandaríska háskólakörfuboltanum. Áður var Kristinn á mála hjá ítalska félaginu Stella Azzura.

Kristinn var með 9,8 stig að meðaltali með Njarðvík á síðasta tímabili. Hann er skotbakvörður að upplagi, er 197 cm á hæð og getur því einnig leikið fleiri stöður.

Faðir Kristins er Páll Kristinsson sem lék með Grindavík um árabil. Segja má að Kristinn feti þar með í fótspor föður síns og ríkir gríðarleg ánægja innan körfuknattleiksdeildar Grindavíkur með að hreppa þennan hæfileikaríka leikmann.

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur um komu Kristins til Grindavíkur:
„Kristinn er frábær leikmaður sem hlaut góða þjálfun ungur að árum í Njarðvík og úr góðu prógrammi á Ítalíu þar sem hann stóð sig vel. Sömuleiðis hefur hann leikið með einu sterkasta yngri landsliði Íslands ásamt því að hafa verið í háskólaboltanum,“ segir Daníel Guðni.

„Ég þjálfaði Kristinn í Njarðvík þegar hann kom heim úr skóla, þannig ég þekki hann vel. Það er sterkt fyrir okkar lið að fá hávaxinn bakvörð, sem er góður skotmaður og frákastar sömuleiðis vel. Hann hefur að geyma mikla körfuboltahæfileika en það sem eru hvað sterkustu eiginleikarnir hjá Kristni eru leiðtogahæfileikar hans og skilningur á leiknum.“

„Tilfinningin er góð að vera kominn til liðs við Grindavík. Ég er tilbúinn í ný verkefni og taldi Grindavík vera besti kostinn í að verða betri leikmaður. Svo er gott að vita af því að faðir minn hefur spilað með Grindavík,“ sagði Kristinn Pálsson.

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur býður Kristinn velkominn og hlakkar til að sjá hann í gulu í vetur.