Kr. Ben – minningarorð

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

 

Íþróttahreyfingin í Grindavík missti mikið laugardaginn 23. júní , þegar Kristinn Helgi Benediktsson eða Kr. Ben eins og við þekktum hann öll, féll frá. 

Ég vill fyrir hönd Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, minnast Kristins í fáeinum orðum.  Kristinn hefur nánast frá stofnun körfuknattleiksdeildarinnar, verið með myndavélina sína á lofti og hefur náð aragrúa frábærra mynda sem vonandi munu varðveitast alla tíð. 

Það er okkur svo mikil ánægja að Kristinn skyldi hafa upplifað og fest á filmuna sína, þá gleði sem ríkti í bænum sem hann var svo sannarlega búinn að taka ástfóstri við, Grindavík, þegar sjálfum Íslandsmeistaratitlinum var lyft í vor.  Nokkrar af síðustu myndunum sem hann tók, voru uppstyllingarmyndir af Íslandsmeisturum Grindavíkur, fáeinum dögum eftir að titlinum var landað og var ekki hægt að fá betri mann til verksins en Kristinn sem fékk alla nærstadda til að brosa sínu breiðasta, nánast eingöngu með nærveru sinni þrátt fyrir að menn væru misvel upplagðir eftir fagnaðarlæti nóttina áður.

Kr. Ben, það var frábært að hafa landað stóra titlinum á þínu kveðjuári, eigðu þökk fyrir allt og allt.

Aðstandendum vottum við samúð.

F.h. Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur,

Sigurbjörn Daði Dagbjartsson