KR hefur tekið forystu í úrslitaeinvíginu með sigrinum í gær. KR var yfir allan tíman en okkar menn gerðu nokkrar góðar tilraunir að jafna en forskotið sem heimamenn náðu á upphafsmínútum reyndist vera óyfirstíganlegur hjalli.
Fyrstu mínútur leiksins voru einkennilegar. Demond Watt var hvað eftir annað algjörlega opinn undir körfunni og var fljótlega kominn með 8 stig og allt mjög auðveldar körfur. Það blasti því við nokkuð öruggur sigur hjá KR en strákarnir tóku sig á og áttu mjög góðan seinni hluta 1. leikhluta. Staðan var 22-18 eftir 10 mínútur.
Það sem eftir lifði leiks voru heimamenn með forystu en forskotið sveiflaðist frá 11 stigum niður í 2 stig nokkrum sinnum. Áttakið við að minnka muninn í 2 stig tók alltaf það á að KR náði fljótlega aftur góðri forystu.
Miðað við það hvað það var margt í leik Grindavíkur sem betur má fara og lykilleikmenn “mættu ekki” í leikinn þá verður maður að vera bjartsýnn fyrir framhaldið. Það vantaði bara herslumuninn og er ég viss um að ef Grindavíkurliðið spilar sinn bolta þá munum við hafa gaman af þessari úrslitakeppni.
Næsti leikur er heima á föstudaginn og þá verður stemmingin ennþá betri á pöllunum sem var til fyrirmyndar í gær.