Körfubolti fyrirferðamikill á heimilinu

Ungmennafélag Grindavíkur Körfubolti

Hekla Eik Nökkvadóttir spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í desember 2019 og var fljótt farin að spila stórt hlutverk í liði Grindavíkur í efstu deild. Liðið spilar núna í 1. deild og hafði spilað fjóra leiki áður en tímabilið fór í COVID pásu og er óhætt að segja að Hekla hafi byrjað tímabilið stórkostlega með tvöfalda tvennu að meðaltali, 16,8 stig og 12,3 fráköst. Er hún meðal annars frákastahæsti leikmaður 1. deildarinnar ásamt því að vera í topp tíu þegar kemur að stigaskori og framlagi. Er þetta magnað afrek fyrir leikmann sem er að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki og er aðeins 16 ára gömul. Foreldrar Heklu eru þau Nökkvi Már Jónsson og Kristjana Jónsdóttir sem áttu bæði farsælan feril í körfuboltanum hér í Grindavík.

Hvernig hefur það verið að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki á sama tíma og heimsfaraldur setur tímabilið ítrekað í óvissu?

Það hefur verið erfitt að fá ekki að æfa og spila körfubolta og það er erfitt að halda sínu striki þegar allt er sett í pásu. Það er líka áskorun að halda áfram styrktaræfingum heima til að halda sér í formi. En vonandi getum við farið að keppa aftur í janúar.

Hvernig hefur tímabilið farið af stað fyrir liðið? 

Við erum með tvo sigra og tvö töp en við ættum að geta gert betur en það og vonandi sýnum við það þegar mótið hefst á ný. 

– Hvað er helsti munurinn á því að spila í efstu deild og 1. deild? 

Í efstu deildinni eru sterkari íslenskir leikmenn og fleiri erlendir leikmenn og þar með betri spilamennska. 

– Hvernig er svo stemningin í liðinu fyrir tímabilinu og markmið liðsins? 

Stemningin í liðinu er góð og við bíðum spenntar eftir að tímabilið hefjist aftur og við ætlum okkur í úrslitakeppnina. 

– Nú kemur þú af miklum körfuboltaættum. Hefur það haft áhrif á val þitt að spila körfubolta og hvernig er samtalið við matarborðið eftir leiki hjá þér?

Já, það hefur örugglega haft áhrif að margir í fjölskyldunni spiluðu körfubolta og ég fór á fullt af körfuboltaleikjum þegar ég var lítil. Samtalið fer svolítið eftir því hvort það var tap eða sigur og foreldrar mínir hafa oftast, því miður, margt að segja um leikinn.   

– Manstu eitthvað eftir því að koma á leiki með Grindavík þegar foreldrar þínir voru að spila með liðinu? 

Já, ég man vel eftir því að hafa farið á leiki með þeim gömlu. Ég man eftir leikjum í úrslitakeppninni hjá pabba og svo þegar mamma var Íslandsmeistari í B- deildinni.

Hópsneshringurinn
Fullt nafn: Hekla Eik Nökkvadóttir
Gælunafn: Ekkert
Aldur: 16 ára
Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki:  Mig minnir að það hafi verið í nóvember 2019.
Uppáhalds drykkur: Vithit eða Powerade
Uppáhalds matsölustaður: Tokyo Sushi
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Brooklyn 99
Uppáhalds tónlistarmaður: Billie Eilish
Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Það er mismunandi en ég fæ mér oftast kakóduft, Oreo og Daim.
Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Líklega væri það hún Helena Sverrisdóttir.
Besti þjálfari sem hefur þjálfað þig: Ég hef haft fáa en mjög góða þjálfara sem ég hef lært mikið af þannig að ég get ekki gert upp á milli þeirra.
Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Í hverju liði er allavega einn óþolandi leikmaður þannig það er erfitt að segja.
Sætasti sigurinn: Úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitil á móti Keflavík í 9. flokki árið 2019 stendur upp úr en það var mjög sætur sigur í erfiðum leik. Annars eru allir sigrar sem skila titli skemmtilegir. 
Mestu vonbrigðin: Það voru mikil vonbrigði að við gátum ekki klárað tímabilið í vor og tryggt Dominos-deildar sætið í meistaraflokki og eins að ná ekki að að klára tímabilið í stúlknaflokki sem hefði mögulega endað með titli. Það var líka mjög svekkjandi að Norðurlandamótið og Evrópumótið hjá U16 ára landsliðinu voru felld niður.
Uppáhalds lið í NBA: Golden State
Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Ég myndi velja Hildi Björgu Kjartansdóttur
Hver er skemmtilegastur í klefanum: Thea er alltaf skemmtileg í klefanum.
Uppáhalds staður á Íslandi: Alltaf gaman að fara á Akureyri.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa: Ég kíki í símann, annað hvort að horfa á þátt eða kíkja á Snapchat.
Fyrir utan körfubolta, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já,ég fylgist aðeins með fótboltanum.
Í hvernig körfuboltaskóm spilar þú: Alltaf best að spila í Kobe skóm.
Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Stærðfræði er ekki í uppáhaldi.
Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Ég tæki Huldu til að vernda okkur, Viktoríu til að sjá um skemmtunina og svo að lokum Nataliu til að koma okkur af eyjunni.
Hverju laugstu síðast: Er ekki alveg viss en líklega einhverju að mömmu og pabba.
Hvað er leiðinlegast að gera á æfingum: Æfingin Mikan er ekki í uppáhaldi.
Nú er tími Covid-19 hvernig er “venjulegur” dagur: Hann er mjög svipaður nema í staðinn fyrir að fara í skólann læri ég heima.