Komnir í undanúrslit eftir sigur á flottu liði Njarðvíkinga

Ungmennafélag GrindavíkurKörfubolti

Grindavík vann Njarðvík í kvöld öðru sinni og þar með rimmu liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar, 87-76.  

Þessi munur gefur kannski ekki alveg rétta mynd því liðin voru jöfn eftir 3 leikhluta en þá kom væntanlega reynsla og okkar breidd til sögunnar og við sigldum fram úr í lokaleikhlutanum og erum þ.a.l. loksins komnir í gegnum 8-liða úrslitin!

Ég vil enn og aftur hrósa þessu unga og bráðefnilega Njarðvíkurliði en eins og áður hefur komið fram, ákváðu Njarðvíkingar að taka til hjá sér og telfdu bara fram sínum ungu heimamönnum auk 2 Bandaríkjamanna.  Leikmenn eins og Ólafur Helgi Jónsson og Maciek Baginski eru mjög efnilegir og Elvar Friðriksson (sonur annars þjálfara Njarðvíkur, Friðriks Ragnarssonar sem þjálfaði okkur 4 tímabil frá 2006-2010),  er eitt það mesta efni sem ég hef séð!  Mjög upprennandi leikstjórnandi og er ótrúlegt að drengurinn sé rétt 18 ára gamall.  Ég er ekki frá því að hann hafi lært öll sín helstu trix þegar hann mætti með karli föður sínum á æfingar í Grindavík…. 🙂

En að leiknum í kvöld.  Allt annað Njarðvíkurlið mætti til leiks í kvöld og því varð um mun meiri skemmtun að ræða og náði meira að segja stundum að hitna í kolunum á milli leikmanna!  

Hápunktur fyrri hálfleiks kom frá okkur Grindvíkingum en þá náði gamla kempan okkar, Nökkvi Már Jónsson að grípa boltann þegar boðið var upp á borgarskot Iceland Express.  Nökkvi Már reiknaði út líkurnar og sá sér leik á borði og eftirlét syni sínum og nafna, skotið og gerði Nökkvi Már jnr. sér lítið fyrir og smellti 3-stiga skoti beint niður og hlaut að launum ferð fyrir tvo til Evrópu.  Mér segir svo hugur til að Nökkvi litli muni hugsa foreldrum sínum þegjandi þörfina þegar þau skella sér í rómantíska borgarferð til Evrópu 🙂

J´Nathan Bullock byrjaði seinni hálfleik með tröllatroðslu og Ljónjagryfjan hreinlega víbraði!  Við virtumst ætla sigla fram úr í seinni hálfleik en Njarðvíkingar voru alls ekki á því og því var staðan jöfn eftir 3 leikhluta eins og áður sagði.  Lokaleikhlutinn var síðan okkar og þá helst fyrir framgöngu 3-stiga skytta okkar en þeir Giordan, Paxel og Lalli voru sjóðandi heitir fyrir utan og Njarðvík lenti á vegg hinum megin.  Sigur okkar því staðreynd og farseðillinn í undanúrslitin staðreynd og kominn tími til eftir að við duttum út í 1. umferð sl. 2 ár!

Það hlýtur að líta flott út að 6 leikmenn okkar skoruðu 10 stig eða meira en það voru þeir Lalli og Giordan með 17 stig, Bullock og Paxel með 13, Jói með 11 og Siggi með 10.

Ætli ég velji ekki Giordan sem okkar besta mann í kvöld en auk stiganna 17 gaf hann 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst.  Var baneitraður í lokafjórðungnum og gaf þá tóninn.

Það eru aldeilis frábærar fréttir fyrir okkur að Lalli sé mættur aftur til leiks en Lalli hefur tekið mikinn kipp eftir að Helgi setti hann inn í byrjunarliðið, einmitt á móti Njarðvík í næst síðustu umferðinni í deildarkeppninni.  Lalli er einfaldlega frábær leikmaður á báðum endum vallarins þegar sá gállinn er á honum og eru þetta mikil gleðitíðindi fyrir okkur.

Paxel var með miðið í lagi í kvöld og setti 3/5 3-stiga skotum sínum niður.  Ekki þarf að fjölyrða um aukinn styrk okkar ef Palli hittir svona!

Bullock hefur oft haft sig meira í frammi í stigaskoruninni en hann tók næst flest fráköst okkar manna eða 7.  Ég gat stundum ekki annað en vorkennt Palla frænda (Páll Kristinsson) þegar hann var að glíma við þetta tröll því bæði getur hann hitt fyrir utan og keyrt að körfunni.  Palli fékk annars flotta heiðursskiptingu þegar skammt lifði leiks en hann mun víst núna, endanlega leggja skónum á hylluna frægu.  Palli hefur átt frábæran feril og m.a. spilaði hann 4 tímabil með okkur og lyfti stóra bikarnum einu sinni og komst GRÁTLEGA nærri því að landa þeim stóra með okkur 2009…………

Jói kann greinilega vel við sig á heimaslóðunum því þótt hann sé orðinn gulur í gegn, þá er hann fæddur og uppalinn Njarðvíkingur.  Jói var heitur í upphafi leiks og vonandi heldur hann áfram á þessari braut.

Það eru eflaust öll lið sem öfunda okkur af Miðherjaparinu okkar en þegar Siggi fær sér hvíld kemur dugnaðarforkurinn Ryan Pettinella í staðinn.  2 gjörólíkir leikmenn og báðir frábærir á sinn máta.  Siggi skilaði flottri tvennu í kvöld, 10 stig og 10 fráköst en Ryan var bæði óheppinn og klaufalegur með villur sínar og þurfti frá að hverfa fljótlega í seinni hálfleik.  En þvílík forréttindi að geta látið þessa turna skiptast á og myndi ég vilja sjá þá stundum saman inni á vellinum með Bullock þá sem þrist. (þetta er ekki stolið frá Gumma Braga síðan um daginn í sjónvarpinu!! :))

Ómar er orðinn gulur í gegn og það er yndislegt að vita af því 🙂  Þeir voru víst fáir eins ánægðir með komu Ryans Pettinella eins og Ómar, þótt vitað yrði að Ryan myndi helst taka spilatíma af Ómari.  En Ómar vill bara vinna og gefur alltaf allt sitt í leikinn þegar hann fær sénsinn.  Hann fékk fólk aðeins til að rísa úr sætum þegar hann var í skætingi við einn Njarðvíkinginn og báðir fengu villu.  En Ómar leggur alltaf allt sitt í leikinn og á heiður skilinn!

Óli troð hefur verið á mikilli uppleið að mínu mati að undanförnu og þótt hann hafi ekki skorað mikið í þessari seríu finnst mér hann vera spila mikið betur en hann var að gera á löngum köflum í vetur.  Óli er kominn aftur í upprunann finnst mér, farinn að spila vörnina af krafti og farinn að keyra meira að körfunni.  Tekur nánast bara góð og opin skot núna og er á réttri leið og er ég nokkuð viss uma ð það styttist í tröllatroðrslu frá honum!

Þessari seriu sem sagt lokið og við tekur 8 eða 9 daga pása en undanúrslitin hefjast ekki fyrr en á annan í páskum og hin serían hefst degi síðar.  Ég hefði nú viljað sjá þetta leikið örar (fimmtudagur-laugardagur-þriðjudagur og föstudagur-sunnudagur-þriðjudagur) og þá hefðu undanúrslitin auðveldlega getað hafist á laugardaginn.  En við nýtum bara þessa hvíld og mætum dýrvitlausir til leiks í undanúrslitin.  KR tryggði sér líka farseðilinn í undanúrslitin eftir sigur á Sauðárkróki í kvöld en Keflavík og Stjarnan og Snæfell og Þór Þorlákshöfn mætast á morgun.

Áfram Grindavík!